19. október 2012 |
Leitað eftir söngfólki í kór Reykhólaprestakalls
„Látið langþráðan draum rætast og komið í kór Reykhólaprestakalls“, segir í hvatningu frá sr. Elínu Hrund Kristjánsdóttur sóknarpresti. Æfingar verða annan hvern þriðjudag í vetur og verður sú fyrsta í Reykhólakirkju núna á þriðjudag kl. 20.30. Stjórnandi kórsins er Viðar Guðmundsson.
„Komið og takið þátt í skemmtilegum félagsskap, hlakka til að sjá ykkur“, segir sr. Elína.
Myndin sem hér fylgir er úr kirkjunni á Skálmarnesmúla í Múlasveit í Reykhólaprestakalli. Hún er fengin úr skjalasafni Húsameistara ríkisins hjá Þjóðskjalasafni Íslands og var tekin 10. júlí 1959, árið áður en kirkjan var vígð. Bygging hennar tók hátt í áratug enda var þá ekki kominn bílvegur út Múlanesið og efnisflutningar örðugir.