Lentu í sjónum í reynslusiglingunni
Nýsmíðaðri eftirmynd Staðarskektunnar svonefndu var í gær siglt til reynslu í þokkalegum byr og var lagt upp frá höfninni á Stað á Reykjanesi. Smíði bátsins hefur verið eitt af viðfangsefnum Félags áhugamanna um stofnun Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum, sem hér var greint frá í fyrradag. Bátsverjar voru Hafliði Aðalsteinsson skipasmíðameistari og Eggert Björnsson, sem báðir unnu að smíði bátsins ásamt Aðalsteini Valdimarssyni skipasmið á Reykhólum og nokkrum öðrum í áhugahópnum. Til fylgdar út á Breiðafjörðinn var Aðalsteinn Valdimarsson á mótorbáti sínum Hafdísi og kom í hans hlut að bjarga þeim félögum úr sjónum eftir að þeir hvolfdu bátnum.
„Okkur gekk þokkalega að rifja upp handtökin en það er alveg ljóst að við þurfum mikla æfingu til að ná góðum árangri", segir Hafliði Aðalsteinsson. „Við sigldum fram og aftur og prófuðum okkur áfram að hagræða seglunum eftir vindi en gekk ekki nógu vel að venda. Það endaði með því að við hvolfdum bátnum."
Hafliði segir að engin leið sé að rétta svona bát þegar hvolfir og ausa hann. Í gamla daga hefði þetta einfaldlega verið búið. „En við vorum í flotgöllum og Aðalsteinn fylgdi okkur til öryggis. Hann tók okkur upp í sinn bát og síðan drógum við bátinn marandi í kafi inn í Staðarhöfn og dældum þar úr honum við bryggjuna. Við lærðum af þessu. Í gamla daga lærðu menn handtökin hver af öðrum og þjálfuðust smátt og smátt í réttum viðbrögðum. Þó að ég hafi prófað að sigla þegar ég var tólf ára gamall er það ekki nóg."
Báturinn var í höfninni á Stað í nótt. Dálítið lak hann í gær eins og eðilegt er um gegnþurran trébát sem er nýkominn á flot.
Fyrirmynd nýja bátsins er fjögurra manna far sem heitir Björg réttu nafni en hefur jafnan gengið undir nafninu Staðarskektan, kennd við Stað á Reykjanesi. Þann bát smíðuðu þeir Ólafur Bergsveinsson skipasmiður í Hvallátrum og Gísli sonur hans á öndverðri síðustu öld. Gísli átti bátinn og fór með hann upp að Stað á Reykjanesi, þar sem hann gerðist ráðsmaður hjá prófastinum. Morgun einn haustið 1925 lagði Gísli upp frá Stað einn á báti sínum í góðu veðri, sem brátt snerist í útsynningshryðjur, og ætlaði norður yfir Þorskafjörð. Bátinn rak litlu síðar mannlausan við lendinguna á Stað. „Það eru sjórinn og lungnabólgan sem drepa okkur frændur", sagði Ólafur skipasmiður faðir hans, sem þarna missti þriðja son sinn í sjóinn.
Þess má geta, að Ólafur Bergsveinsson skipasmiður í Hvallátrum var afi áðurnefnds Aðalsteins Valdimarssonar og langafi Hafliða Aðalsteinssonar. Allir eru þeir komnir í beinan karllegg breiðfirskra skipasmiða af Ólafi Teitssyni skipasmið í Sviðnum á Breiðafirði, sem fæddur var árið 1810.
Nýja Staðarskektan er að mestu smíðuð úr rekaviði af Ströndum, líkt og almennt var í bátasmíði Breiðfirðinga á fyrri tíð. Allir máttarviðir, bönd, kjölur og stefni eru úr rekaviði, svo og hluti af byrðingnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Vinfastur.
Margar fleiri myndir sem teknar voru í gær þegar lagt var úr höfn á Stað og siglt út á Breiðafjörð er að finna í valmyndinni hér vinstra megin undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Vinfastur 7. júní 2008.
Þrymur Sveinsson, sunnudagur 08 jn kl: 13:48
Frábært í alla staði að Björg siglir og enginn skemmdist.
Gengur betur í næstu siglingu.