Tenglar

25. júní 2011 |

Leópold Jóhannesson úr Múlasveit látinn

Leópold Jóhannesson árið 1957.
Leópold Jóhannesson árið 1957.
1 af 2
Einn af kunnustu sonum Austur-Barðastrandarsýslu á síðari árum, Leópold Jóhannesson, löngum kenndur við Hreðavatnsskála, andaðist í fyrradag, nærri 94 ára að aldri. Hann fæddist á Ingunnarstöðum í Múlasveit en ólst upp á Laugabóli við Ísafjörð innst í Djúpi. Fóstra hans var Halla Eyjólfsdóttir skáldkona frá Gilsfjarðarmúla. Leópold var mikill félagsmálamaður en þjóðkunnur varð hann sem veitingamaður í Hreðavatnsskála í Borgarfirði. Hann var landsþekktur fyrir einstaka hjálpsemi og greiðvikni.

 

Lengi á fyrri hluta ævinnar var Leópold vélamaður og verkstjóri hjá Vegagerð ríkisins og stóð ásamt öðrum að stofnun Starfsmannafélags Vegagerðarinnar. Hann var alla tíð mjög áhugasamur um björgunar- og slysavarnamál, sat mörg þing Slysavarnafélags Íslands og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hann var áhugamaður um stofnun Björgunarsveitarinnar Heiðars í Borgarfirði og tók virkan þátt í störfum hennar.
 
Leópold var kunnur hestamaður og stóð jafnframt fyrir kynbótum og ræktun hrossa. Hann var stofnfélagi í Félagi hrossabænda og síðar heiðursfélagi þess. Leópold var á sínum tíma formaður Félags eldri borgara í Kópavogi og fararstjóri í fjölmörgum ferðum þess um land allt. Hann var á efri árum eftirsóttur leiðsögumaður.

 

Starfsferli sínum lauk Leópold hjá Olíufélaginu Esso. Þar vann hann fulla vinnu uns hann sagði starfi sínu lausu kominn fast að áttræðu.

 

Leópold Jóhannesson var tvíkvæntur. Með fyrri konu sinni eignaðist hann þrjú börn en fjögur með þeirri seinni. Afkomendur hans fylla nú hálfan fjórða tuginn.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31