Lið Barðstrendinga og Breiðfirðinga eigast við
Þá er komið að því sem beðið var eftir - lið Barðstrendingafélagsins og Breiðfirðingafélagsins eigast við í kvöld í seinni lotunni í sextán liða úrslitum í Spurningakeppni átthagafélaganna. Ýmsum sem tengjast báðum félögunum þykir heldur slæmt að þessi breiðfirsku lið skuli hafa dregist saman strax í upphafi - það merkir einfaldlega að annað þeirra fellur úr leik. Skemmtilegra hefði verið ef þau hefðu lent saman í úrslitum. Því er hins vegar spáð, að hvort þeirra sem vinnur í kvöld muni síðan fara alla leið í úrslitin og sigra þar.
Eins og hér hefur komið fram er það næsta athyglisvert, að af félögunum sextán sem taka þátt í keppninni er meirihlutinn eða níu félög með rætur á Vestfjarðakjálkanum og kringum Breiðafjörð.
Spurningakeppni átthagafélaganna fer fram í Breiðfirðingabúð í Reykjavík. Auk ofangreindra eigast við í kvöld lið Súgfirðingafélagsins og Átthagafélags Strandamanna, lið Átthagafélags Héraðsmanna og Vestfirðingafélagsins og loks lið Siglfirðingafélagsins og Norðfirðingafélagsins.
Vonandi verður ekki litið á það sem neina hlutdrægni af hálfu Reykhólavefjarins, að með þessari frétt skuli birt mynd af einum úr liði Barðstrendingafélagsins. Það er ofurhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson frá Móbergi á Rauðasandi, hagfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þarna er hann á sprettinum ásamt félaga sínum innst í Þorskafirði á leiðinni frá Flókalundi í Bjarkalund fyrir nokkrum árum.
► Vefur Barðstrendingafélagsins
► Vefur Breiðfirðingafélagsins