Liðið ár var í heildina úrkomuríkt við Breiðafjörð
Á nýliðnu ári var úrkoma á landinu mest að tiltölu við Breiðafjörð og víða á Vestfjörðum. Úrkoma var nærri meðallagi norðanlands og austan en yfir meðallagi um sunnan- og vestanvert landið. Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Veðurstofu Íslands um veðurfarið á árinu 2008. Árið byrjaði með mikilli úrkomutíð en þurrviðrasamt var framan af sumri. Mikið rigndi síðan í september.
Hiti var óvenjulegur um sunnan- og vestanvert landið í mánuðunum maí til júlí. Í Stykkishólmi er það einungis í maí til júlí 1933 sem var hlýrra en nú. Þar hefur verið mælt í yfir 160 ár.
Norðaustlæg átt var ríkjandi í júní og veðurlag dró dám af því. Hlýtt var um sunnan- og vestanvert landið og hiti vel yfir meðallagi. Hiti var lítillega yfir meðallagi við sjóinn á Norðaustur- og Austurlandi, en undir því inn til landsins á þeim slóðum. Mjög þurrt var vestanlands og einnig víða um sunnanvert landið og vatnsskortur sums staðar til ama.
Sjá nánar á vef Veðurstofu Íslands: Árið 2008 - bráðabirgðayfirlit í árslok