Tenglar

20. desember 2014 |

Liðlega níutíu jarðir koma við sögu

1 af 2

„Þetta er ástríða. Það var hugsjónavinna að gera þessa bók,“ segir Finnbogi Jónsson frá Skálmarnesmúla, ritstjóri og aðalhöfundur hins afar veglega Vestfjarðarits IV, er nefnist Hjalla meður græna, Austur-Barðastrandarsýsla 1900-2012. Bókin er alls 624 blaðsíður og með yfir eitt þúsund ljósmyndum. Þegar Finnbogi er spurður um ástæðu þess að hann réðst í þetta mikla og metnaðarfulla verk segir hann að árið 1989 hafi komið út ágætlega ítarlegt ábúendatal um héraðið en sér hafi þótt myndirnar í því fáar. „Ég fór í framhaldi af því að safna saman myndum og upplýsingum úr héraðinu,“ segir hann.

 

Þannig hefst viðtal Einars Fals Ingólfssonar blaðamanns við Finnboga frá Skálmarnesmúla í Múlasveit í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins núna um helgina.

 

 

Glefsur úr viðtalinu:

 

Finnbogi fékk sér góða ljósmyndavél árið 1995 og byrjaði að mynda bæina í sýslunni. Hugsaði sér kannski að skrifa um svæðið einhvern tíma en ekki á þennan hátt. Síðan 2004 hefur hann skrifað talsvert í Árbók Barðastrandarsýslu. Það varð vafalaust til þess að Birkir Friðbertsson, formaður Útgáfufélags Búnaðarsambands Vestfjarða, réð Finnboga til þessa verks sumarið 2012.

 

„Ég ek oft vestur og hef tekið myndir í leiðinni, er uppalinn þarna, á Skálmarnesmúla. Við Þuríður Kristjánsdóttir kona mín, sem hefur unnið verkið með mér á öllum stigum, erum mikið þarna á sumrin, erum þar með sumarhús.“

 

- - -

Jarðirnar sem koma við sögu eru rúmlega níutíu talsins en Finnbogi segir þó að það fari eftir því hvað sé talið. „Sum kotin voru svo lítil að það var á reiki hvernig ætti að telja. En myndirnar eru margar. Hver síða er nýtt til hins ýtrasta. Það var tekist á um síðufjöldann. Ég hefði viljað hafa bókina enn þykkari.“

 

- - -

Ég vildi sérstaklega varpa ljósi á horfin býli, eins og Teigsskóg, Barm og Miðhús í Djúpafirði, Grónes og býlin í botni Kerlingarfjarðar. Stundum missti ég frá mér upplýsingar þegar fólk hreinlega dó frá mér, en það er ekkert hægt að gera við því. En mér fannst mikilvægt að fjalla um horfnu býlin og þótti til dæmis vænt um að fá myndir af fólkinu og húsinu í Teigsskógi, frá Hlíð í Þorskafirði og Hjöllum þar í firðinum, svo ég nefni dæmi. Ég lagði ofuráherslu á að fá upplýsingar um þessi horfnu býli. Þar var meira hulið fyrir framtíðina.“

 

- Það hlýtur að hafa verið sérkennilegt að upplifa það að sjá búskap hætta á hverri jörðinni á fætur annarri?

 

„Jú, fólkið fór og kvaddi. Ég lenti í því sjálfur, 1975 fórum við frá Skálmarnesmúla. Þetta stendur manni nærri.“

 

Og Finnbogi annast einnig gamla kirkju þar heima, bændakirkju í gamla kerfinu eins og hann segir. „Ég vil halda henni við eins og kostur er, hún er í þokkalegu standi en þarf stöðugt viðhald.“

 

- - -

Þetta er fyrsta bókin sem Finnbogi tekur saman en hann hefur áður skrifað greinar í Árbókina eins og áður segir. Finnbogi er annars málarameistari og hefur húsamálun verið hans atvinna. Þetta er talsvert önnur iðja, að sitja við, grúska og skrifa. Hefur það ekki verið gaman?

 

„Jú, þetta er mikið áhugamál. Ég held áfram að skrifa, byrjaði strax eftir að bókin fór í prentun,“ segir hann. Og næst er það saga kirkjunnar hans á Skálmarnesmúla, sem birtist kannski í næstu Árbók sögufélags sýslunnar.

 

 

Hér fylgja innskannaðir partar af tveimur opnum í ritinu.

 

Annars vegar er hluti af opnu þar sem fjallað er um landnámsjörðina Miðjanes í Reykhólasveit, og þarf víst ekki að kynna fyrir íbúum Reykhólahrepps fólkið sem þar blasir við.

 

Hins vegar er hluti af opnu þar sem fjallað er um Barm við Djúpafjörð í Gufudalssveit, eitt af horfnu býlunum sem Finnbogi nefnir sérstaklega. Umsjónarmaður þessa vefjar leyfir sér að geta þess hér, að Steinunn Guðmundsdóttir móðir hans fæddist í Barmi, elsta barn Þorbjargar Guðmundsdóttur úr Skáleyjum og Guðmundar Arasonar, ungs bóndasonar í Barmi. Ari og Björg sem eru á myndunum vinstra megin, amma Steinunnar og afi, voru þá búendur í Barmi. Aðalsteinn Arason bóndi í Barmi, sem er á myndinni hægra megin, var föðurbróðir hennar.

 

Hér má finna nánari upplýsingar um Vestfjarðarit II, Hjalla meður græna

 

Sjá einnig:

Kirkjan á Skálmarnesmúla er þolinmóð allt árið

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30