Líður að 75 ára afmæli Breiðfirðingafélagsins
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið: Nú þegar er hafinn undirbúningur vegna 75 ára afmælis Breiðfirðingafélagsins sem verður eftir rúma tvo mánuði, en félagið var stofnað 17. nóvember 1938. Þetta kemur fram í Fréttabréfi Breiðfirðingafélagsins, 5. tölublaði þessa árs, sem var að koma út. Greint er frá því, að á fundi átthagafélaganna sem stóðu að spurningakeppninni á liðnum vetri hafi verið ákveðið að halda hana á ný núna í vetur og verður hún í Breiðfirðingabúð eins og áður.
Sumarferð félagsins var að þessu sinni farin að Logalandi í Borgarfirði dagana 21.-23. júní. Alls voru 97 manns í ferðinni og þar af 21 yngri en 14 ára. Á vef félagsins eru á annað hundrað myndir úr ferðinni. Myndin sem hérna fylgir er úr þeim hópi og má þar sjá Snæbjörn Kristjánsson formann félagsins fyrir miðju.
Í fréttabréfinu er í stórum dráttum gerð grein fyrir fjölbreyttu starfi félagsins allt fram á vor.
► Fréttabréf Breiðfirðingafélagsins, 5. tbl. 2013
► Vefur Breiðfirðingafélagsins