Tenglar

7. desember 2011 |

Lífæðin FM sendir út í - og frá - Reykhólahreppi

Vestfirska jóla- og menningarútvarpið Lífæðin FM er nú komið í Reykhólahrepp og á marga fleiri staði á Vestfjörðum í fyrsta sinn. Sendir fyrir stöðina var settur upp á Reykhólaskóla fyrir stuttu og tíðnin þar er FM 103,5. Efni Lífæðarinnar FM snertir alla Vestfirði og m.a. verður Harpa Eiríksdóttir á Stað í Reykhólasveit með þáttinn Stingum af til Vestfjarða alla virka daga kl. 11-13, í fyrsta skipti á morgun, fimmtudag. Þar verður farið í skemmtilegt ferðalag um Vestfirði, þar verða símatímar, fólk fengið í viðtöl, sveitasögur, sagðar fréttir og sitthvað fleira. Í fyrsta þættinum verður sagt frá sveitalífinu, Reykhólahreppi, æðarfuglinum og ýmsu öðru.

 

Starfstími Lífæðarinnar FM að þessu sinni er réttur mánuður, frá 7. desember til 7. janúar.

 

Þáttur Hörpu á Lífæðinni FM er með Facebook-síðuna Stingum af til Vestfjarða.

 

Þórður Vagnsson í Bolungarvík, upphafsmaður og útvarpsstjóri Lífæðarinnar FM, hefur undirstrikað við sveitarstjóra Reykhólahrepps, að skólakrökkum sem og öllu áhugasömu fólki í sveitarfélaginu stendur til boða að taka þátt í dagskrá útvarpsins. Hægt er að taka upp efni og senda til Lífæðarinnar FM eða nota Skype eða síma, bara spurning um áhuga og hentisemi og tíma.

 

Skipulögð dagskrá á stöðinni er kl. 8-22 virka daga og kl. 10-24 um helgar. Þegar ekki er skipulögð dagskrá á Lífæðinni FM verður Kananum FM útvarpað um allt dreifikerfi stöðvarinnar, sem er í samstarfi við Einar Bárðarson og Kanann.

 

Netútsending Lífæðarinnar er sem fyrr á vef stöðvarinnar og nú verður bæði hægt að hlusta á útsendingarnar og horfa á lifandi mynd úr hljóðverum hennar, sem eru í Bolungarvík, á Suðureyri við Súgandafjörð og í Hamraborg í Kópavogi. Lífæðin FM mun nú í samstarfi við Hans Konrad Kristjánsson og Útvarp Ás í Hamraborg senda út á FM 98,3 um allt höfuðborgarsvæðið í fyrsta sinn.

 

Lífæðin FM er öllum opin, þ.e. hver sem er getur tekið þátt í dagskránni óháð staðsetningu. Nánari upplýsingar um þetta veitir Þórður útvarpsstjóri. „Við spilum alla tónlist og öll vinna við dagskrá útvarpsins er sem fyrr unnin í sjálfboðavinnu. Lífæðinni FM er ætlað það hlutverk að tengja Vestfirði saman í eina heild, inn á við og út á við, og til að mynda er mikil hlustun á útvarpið á netinu um víða veröld“, segir Þórður.

 

Lífæðin FM var með útsendingar á þessum árstíma tvö síðustu ár og einnig árið 2007. Áður fór Lífæðin „í loftið“ tvo daga í desember fyrir nítján árum og mun þá hafa verið nefnd bolvískt menningarútvarp. Núna hafa eins og áður segir verið settir upp sendar um alla Vestfirði.

 

„Lífæðin FM er menningarverkefni sem byggir starfsemi sína alfarið á styrkjum sveitarfélaga á Vestfjörðum, fyrirtækjum hér vestra og sunnan heiða og víðar, stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum á öllum aldri bæði hérlendis og erlendis“, segir Þórður Vagnsson. „Lífæðin FM selur ekki auglýsingar en býður styrktaraðilum sínum kynningu í stað styrkja, hvort sem það eru beinar auglýsingar, viðtöl eða þáttagerð og svo mætti lengi telja. Þeim sem vilja styrkja Lífæðina FM er bent á vef útvarpsins eða að hafa beint samband við útvarpsstjóra í s. 844 6213 eða í netpósti eða leggja inn á reikning.“

 

Upplýsingar um styrktarsamninga er að finna hér og hér (pdf).

 

Styrktarreikningur Lífæðarinnar er 0101-26-090269, kt. 090269-5189.

 

Allar nánari upplýsingar um Lífæðina FM og hvernig hægt er að hafa samband er að finna á vef stöðvarinnar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31