Lífshlaupið
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Forsaga Lífshlaupsins er að árið 2005 skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfshóp til þess að fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu.
Starfshópurinn setti fram hugmyndir um mótun íþróttastefnu Íslands í skýrslunni, Íþróttavæðum Ísland, aukin þátttaka, breyttur lífsstíll.
Í skýrslunni er að finna leiðir fyrir alla hópa þjóðfélagsins, óháð aldri, búsetu, fjárhag eða öðrum þáttum til að stunda íþróttir og hreyfingu með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar. Á sama tíma setti vinnuhópurinn af stað vinnu að vef sem ÍSÍ var afhentur haustið 2006. Síðan þá hefur almenningsíþróttasvið ÍSÍ, ásamt samstarfsaðilum, mótað verkefnið Lífshlaupið með það að markmiði að hvetja alla landsmenn til að hreyfa sig daglega.
Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag. Nánari upplýsingar um ráðleggingar um hreyfingu má finna á síðu Embætti landlæknis.
Lífshlaupið stendur fyrir:
Grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri í tvær vikur í febrúar
Framhaldsskólakeppni fyrir 16 ára og eldri í tvær vikur í febrúar
Vinnustaðakeppni í þrjár vikur í febrúar
Einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið
Skrá má alla hreyfingu niður ef hún nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.
Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.
Þín heilsa - Þín skemmtun