Tenglar

29. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Lilja Rafney: Björt og vongóð

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

„Ég er auðvitað fyrst og fremst björt, þakklát og vongóð um að við öll sem kosin vorum eigum eftir að skila góðum verkum í þágu lands og þjóðar,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri, þingmaður Vinstri grænna, um úrslit kosninganna. „Við fundum ótrúlega góðan meðbyr síðustu vikuna og bjuggumst ekki við því að kosningin yrði jafn tæp og raun ber vitni. Mér hefur verið sagt að það hafi bara munað um 50 atkvæðum að ég næði aftur inn sem kjördæmakjörinn þingmaður, en ég er bara þakklát fyrir baráttu félaga minna sem skilar okkar á endanum að minnsta kosti manninum inn,“ segir hún.

 

„Þetta hefur auðvitað mikil áhrif á framgang listans að vera berjast við tvo fyrrum félaga á öðrum listum og viðbúið að þær aðgerðir sem fara þyrfti í vegna viðbragða við Hruninu yrðu ekki til vinsælda fallnar. En það sem við horfum til nú er að vonandi verði þeim árangri ekki glutrað niður á kosningafylliríi Framsóknarflokks og Sjálfstæðismanna. Þeir eru komnir þangað sem þeir eru vegna margra gylliboða og óábyrgra kosningaloforða, ef út í það er farið, en ég horfi auðvitað til míns fyrrum félaga Ásmundar Einars. Það er auðvitað ekki búið að ganga frá umboði til myndunar ríkisstjórnar en ég get vel óskað Framsóknarmönnum til hamingju með árangurinn. Ég veit að í þessu kjördæmi byggir hann á þeirri byggðastefnu sem hann hefur boðað og ég á eftir að sjá þá semja við laskaðan Sjálfstæðisflokkinn um þær aðgerðir, en það verður kannski hægt í ljósi þess að á landsbyggðinni er Sjálfstæðisflokkurinn áfram í sögulegri lægð,“ segir Lilja Rafney.

 

„Það hefur ekki verið rekin alvöru byggðastefna í landinu síðastliðin 20 ár, á meðan þessir flokkar voru við völdin  og nú stendur upp á Ásmund Einar og félaga að standa við sinn málflutning. Við í Vinstri grænum nýttum allt það svigrúm sem var fyrir hendi til að bæta úr í byggðamálunum og þá sérstaklega með það að leiðarljósi að byggja upp fjölbreytni í atvinnulífinu. Við verðum líka tilbúin til að vinna að öllum góðum málum sem snúa að því að bæta úr í samgöngumálum, það væri mikið gagn að því að flýta Dýrafjarðargöngum og huga að nýjum lausnum varðandi Vestfjarðaveg,“ segir hún.

 

Hér er nánar rætt við Lilju Rafney á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31