Lions: Þorláksmessuskatan kemur frá Ísafirði
Skötuveislan árvissa á Þorláksmessu hjá Lionsfólki í Reykhólahreppi verður eins og áður í matsal skólans milli kl. 12 og 14. Saltfiskur verður í boði fyrir þá sem treysta sér ekki í sjálft lostætið. Skatan sem á borðum verður kemur frá Lionsfólki á Ísafirði, sem alltaf verkar skötuna sjálft fyrir sína Þorláksmessuveislu. Kári Þór Jóhannsson, Lionsmaður og skötuverkandi á Ísafirði, segir að skatan sem send verður á Reykhóla sé mjög góð, og kemur það ekki á óvart.
„Skatan hjá Lionsklúbbnum á Ísafirði hefur alltaf verið til fyrirmyndar. Þeir elstu sem taka þátt í verkuninni eru komnir um sjötugt og hafa stundað þetta alla sína tíð, þannig að samanlögð reynsla í hópnum er örugglega nokkur hundruð ár.“
Sjálfur er Kári þrautreyndur skötuverkandi. Síðustu tólf árin hefur hann verið einn af þeim Lionsfélögum sem verka skötuna fyrir Þorláksmessuveisluna á Ísafirði og ennþá lengra er síðan hann starfaði að skötunni í Norðurtanganum á Ísafirði.
Fyrir hálfu öðru ári stofnaði Kári fiskbúð á Ísafirði undir nafninu Sjávarfang. Þar hafði þá engin fiskbúð verið í fimmtán ár í þessum mikla útvegsbæ, og viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Ég er ánægðastur með það hvað bæjarbúar og nærsveitamenn eru ánægðir með að hafa aftur aðgang að nýjum fiski.“
Hin rómaða Lionsskata á Ísafirði er ekki einungis send á Reykhóla. „Við höfum verið beðnir um að senda skötu út um allt land og jafnvel til útlanda,“ segir Kári Þór Jóhannsson.
Allir eru velkomnir í skötumessuna á Reykhólum, alveg sama þó að þeir tengist Lions ekki neitt. Verðið er kr. 2.200 nema fyrir 12 ára og yngri sem borga kr. 1.000. Athugið, að enginn posi verður á staðnum.
Lesa má ýmsan fróðleik um skötuátið á Þorláksmessu í frétt hér á vefnum fyrir ári:
►►► 21.12.2011 Rammstæka skatan rétt er fín
Og fyrir áhugafólk um hámerar - frásögn og myndir frá Reykhólum:
►►► 23.07.2008 Fengu væna hámeri í grásleppunetin