Tenglar

22. nóvember 2011 |

Lionsfólk í Reykhólahreppi selur Bækurnar að vestan

1 af 2

Vestfirska forlagið undir stjórn Hallgríms Sveinssonar á Þingeyri hefur síðustu sautján ár gefið út mikinn fjölda bóka sem flestar tengjast Vestfjörðum og Vestfirðingum með einum eða öðrum hætti. Fimm síðustu árin hefur Lionsdeildin í Reykhólahreppi haft bækur forlagsins til sölu sér til fjáröflunar og svo er einnig nú. Þær verða til sölu á jólamarkaðinum í Króksfjarðarnesi um komandi helgi og eftir það í Hólakaupum á Reykhólum eins og í fyrra. Eyvi og Ólafía í Hólakaupum taka ekki krónu fyrir söluna heldur rennur allur afraksturinn til Lionsdeildarinnar. Sem kunnugt er rennur allt það fé sem Lionsmenn safna með ýmsum hætti til velferðar- og menningarmála í heimabyggð en einnig að einhverju leyti til mannúðarmála á landsvísu og heimsvísu.

 

Að þessu sinni koma út átján bækur hjá Vestfirska forlaginu og hafa aldrei áður verið svo margar. Frá upphafi eru bækur forlagsins komnar á þriðja hundraðið. Fimmtán bókanna þetta árið eru á íslensku en þrjár á ensku, ætlaðar erlendu ferðafólki. Bækurnar að vestan, eins og Hallgrímur Sveinsson kallar útgáfu sína gjarnan, hafa að geyma efni frá ýmsum tímum frá öllum svæðum Vestfjarðakjálkans.

 

Því má skjóta hér inn, að Helgi Kristjánsson, sem ritar í alveg nýútkominni bók hjá Vestfirska forlaginu bráðskemmtilegar og fróðlegar æviminningar sínar undir heitinu Í björtum Borgarfirði (fjórar stjörnur af fimm í ritdómi í Morgunblaðinu fyrir stuttu) er föðurbróðir Eyva í Hólakaupum.

 

 

Bækur Vestfirska forlagsins á þessu ári eru taldar hér fyrir neðan.

 

Flestar þeirra eru komnar úr prentun en örfáar eru enn í vinnslu og koma á markaðinn mjög fljótlega. Í ljósi þess að Vestfirska forlagið er eina bókaforlagið á Vestfjörðum og sala á bókum þess er meðal fjáröflunarleiða Lionsfólks í Reykhólahreppi má vænta þess að einhverra nýju bókanna verði getið sérstaklega hér á vefnum á næstunni.

 

Frá Bjargtöngum að Djúpi. Nýr flokkur, 4. bindi

Áður eru komnar út þrettán bækur í þessum bókaflokkum þar sem fjallað er um vestfirskt mannlíf í máli og myndum að fornu og nýju.

 

Vestfirskar konur í blíðu og stríðu, 2. bók

Höfundur Finnbogi Hermannsson, fyrrum útvarpsmaður á Ísafirði. Hvar eru konurnar í bókunum að vestan? Svo var spurt í fyrra. Eru þær kannski ennþá bak við eldavélina? Yfirleitt eru þetta nú karlar að skrifa um karla. Merkileg uppgötvun!

 

Hjólabókin. Dagleiðir í hring á hjóli um Vestfirði. 1. bók

Eftir Ómar Smára Kristinsson á Ísafirði. Það er ekki amalegt að hjóla um Vestfjarðakjálkann með þennan vandaða leiðarvísi sér við hönd, sem sennilega á sér enga hliðstæðu hér á landi. Kemur einnig að góðum notum fyrir þá sem eru akandi.

 

Sjómannslíf. Lífið um borð, náttúran og lífríkið

Ljósmyndabók eftir Eyþór Jóvinsson. Óvenjuleg ljósmyndabók frá vinnustað sjómannsins. Myndir af skipsfélögum, fallegri náttúru og lífinu á sjónum. Jólabók bæði sjómanna og landkrabba!

 

Virkið í vestri. Vestfirðir í kalda stríðinu

Eftir Finnboga Hermannsson fyrrum forstöðumann Svæðisútvarps Vestfjarða. Sagnfræðileg skáldsaga frá tímum kalda stríðsins þar sem ameríska radarstöðin á Straumnesfjalli kemur við sögu.

 

Veislan í norðri

Eftir Jón Hjartarson. Síldarárin á Íslandi 1960-1967 voru uppgripaár. Allir vildu græða. Helsti síldarsérfræðingur okkar, Jakob Jakobsson, varaði við hruni norsk-íslenska síldarstofnsins 1966. Enginn hlustaði. Svo lauk veislunni skyndilega. Kannast menn við prógrammið?

 

Í björtum Borgarfirði. Trönustrákur segir frá

Eftir Helga Kristjánsson. Höfundur ólst upp við Hvítá í Borgarfirði. „Lífið við ána var aldrei fábreytt. Umhverfið bjó yfir seiðandi töfrum og laðaði bæði menn og dýr. Sá sem elst upp í slíkri paradís gleymir því aldrei, alveg sama hversu langt hann flytur og hversu vel honum líður á nýjum stað.“

 

Ísafjörður ægifagur

Ljóðabók eftir Matthías Kristinsson.

 

        Í huga mínum held ég vörð

        um heimabæinn bjarta

        og geymi ávallt Ísafjörð

        innst í mínu hjarta.

 

Austur og vestur um haf

Frásöguþættir eftir Kristin Snæland. Sagt er frá Kockums-skipasmíðastöðinni í Málmey í Svíþjóð, en þar unnu um 300 Íslendingar á sínum tíma. Fjallað er um Esphólinbræður sem voru merkir frumkvöðlar og Sambandsskipið Mælifell kemur við sögu. Frásagnir upp á gamlan íslenskan máta.

 

Þórður Þ. Grunnvíkingur rímnaskáld

Ævisaga eftir Guðlaug Gíslason frá Steinstúni. Magnús Hj. Magnússon (Skáldið á Þröm) var náfrændi og besti vinur Þórðar Grunnvíkings. Þeirra örlög voru um margt lík. Magnús skrifar þannig um vin sinn: Þórður Grunnvíkingur var fæddur gáfumaður, hneigður fyrir fróðleik ýmiskonar og einkum fornfræði er snerti land vort og þjóð. Hann var djarfur í lund og lét margt flakka í vísum sínum sem of nærri þótti fara. Þótt hann rækti erfiðisvinnu sem mest hann mátti var hann þó jafnan bláfátækur, já hvernig sem hann leitaði lags, var sem hin sífurlynda norn örbirgðin læsti um hann járngreipum sínum, svo ekkert undanfæri var.

 

Hlutverkaleikur. Skólastarf utan veggja

Ólafur Guðmundsson og Elísabet Svavarsdóttir tóku saman. Hvað er hlutverkaleikur, hvernig tengist hugtakið kennslu- og uppeldisfræði og hvernig má nýta hlutverkaleik sem kennsluaðferð?

 

Vestfirskar sagnir, 2. og 3. hefti

Helgi Guðmundsson tók saman. Þessi vestfirski sagnaarfur var lesinn upp til agna á sínum og hefur verið ófáanlegur í áratugi. Vestfirska forlagið hefur nú byrjað að endurprenta hann og kom 1. heftið út í fyrra.

 

Öll þau klukknaköll, frásagnir 24 prestskvenna, seinna bindi

Síra Ágúst heitinn Sigurðsson og eiginkona hans Guðrún Lára Ásgeirsdóttir bjuggu til prentunar. Skyggnst um á prestssetrum á Íslandi á fyrri tíð. Aldrei hefur áður verið fjallað svo ítarlega um störf prestskvenna á Íslandi. Í þeim skilningi er þetta undirstöðuverk.

 

Maður sem lánaðist

Hallgrímur Sveinsson tók saman. Sitthvað um Vestfirðinginn Jón Sigurðsson forseta.

 

Life and History in the Westfjords of Iceland, 1. hefti

Haukur Ingason þýddi. Fjallað er um Dýrafjörð á ýmsum tímum. Hugmyndin er að gefa út eina bók um hvert hérað á Vestfjörðum.

 

Funny Tales from Daily Life in the Westfjords of Iceland

Úrval úr ritsafninu 101 ný vestfirsk þjóðsaga, 1.-3. hefti. Gísli Hjartarson tók saman. Inniheldur eingöngu gamansögur með blönduðu efni hvarvetna af fjörðunum. Haukur Ingason þýddi.

 

We Call Him President

Hallgrímur Sveinsson tók saman. Haukur Ingason þýddi. Hér er fjallað um Vestfirðinginn Jón Sigurðsson og er það æviágrip hans í hnotskurn, þar sem sagt er frá ævi hans og starfi í stuttu, hnitmiðuðu máli.

 

Á mynd nr. 2 hlýða Finnbogi Hermannsson, tveggja bóka höfundur hjá Vestfirska forlaginu þetta árið, og Hallgrímur Sveinsson útgefandi, á erindi um vestfirskan húmor á Bókamessu Félags bókaútgefenda í Ráðhúsi Reykjavíkur um fyrri helgi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31