Lionsskatan: Árgangur 2013 óvenjugóður
„Hún er sterk. Menn voru látnir hafa fataskipti úti í bílskúr þegar heim var komið eftir pökkunina, eða úti, ef það var enginn bílskúr,“ segir Kári Þór Jóhannsson, Lionsmaður á Ísafirði, aðspurður um lyktina af skötunni þetta árið. Um helmingur skötunnar hjá Lions á Reykhólum í veislunni á Þorláksmessu kemur frá Lions á Ísafirði. „Óvenjugóður árgangur. Þeir sem hafa smakkað láta mjög vel af henni,“ segir hann.
„Já, Lionsklúbburinn hérna stóð í skötuverkun í vetur eins og alla aðra vetur. Núna vorum við í þessu fimm helgar. Ef við legðum saman aldur og starfsreynslu okkar Lionsfélaganna á Ísafirði í skötuverkun, þá mætti alveg tala um aldagamla hefð! Andvirði skötusölunnar hjá okkur rennur óskipt til samfélagins í formi styrkja og gjafa til alls konar góðra málefna,“ segir hann. Kári nefnir að í gær hafi klúbburinn verið að styrkja leikskólana á Ísafirði. „Þannig að peningarnir stoppa stutt hjá okkur, sem betur fer.“
Lionsfólk á Ísafirði sendir skötuna sína margfrægu ekki aðeins um land allt heldur einnig til útlanda. Meira að segja hefur verið beðið um að senda hana alla leið til Japans.
Sama gildir um innkomuna af skötuveislu Lions á Reykhólum og það sem Kári nefndi um innkomuna hjá Lions á Ísafirði (og hvarvetna í heiminum): Allir peningarnir fara til samfélagsmála.
Skötuveisla Lionsfólks í Reykhólahreppi verður að venju á Þorláksmessu í matsal Reykhólaskóla kl. 12-14. Á borðum verða úrvals skata og saltfiskur með tilheyrandi. Kaffi og eitthvað sætt á eftir og frostpinni fyrir börnin. Hugljúf jólatónlist og jólamynd í tækinu fyrir krakkana.
Verðið er kr. 2.200 fyrir fullorðna og kr. 1.000 fyrir 12 ára og yngri. Enginn posi fremur en endranær. Allir eru hjartanlega velkomnir.