Lionsskatan á sínum stað á Þorláksmessu
Lionsfélagar í Reykhólahreppi eru klárir fyrir skötumessuna árvissu á morgun, Þorláksmessu. Hún verður í borðsal Reykhólaskóla og stendur milli kl. 12 og 14. Saltfiskur er í boði fyrir þá sem vilja hann heldur. Allir eru velkomnir í veisluna, sama hvort þeir tengjast Lions eða ekki. Verðið er kr. 2.200 nema fyrir tólf ára og yngri, sem borga aðeins kr. 1.000. Enginn posi á staðnum.
Vísnahornið í Morgunblaðinu í dag er helgað kæstri skötu í tilefni morgundagsins og yfirskriftin er í samræmi við innihaldið: Skötustækja og fólksflótti að vestan. Umsjónarmaður byrjar þáttinn á þessa leið:
Karlinn á Laugaveginum [sem oft kemur við sögu í Vísnahorninu] var eins og á báðum áttum, þegar ég sá hann, og strauk á sér rautt skeggið. Ég vissi að eitthvað hafði komið upp á milli hans og kerlingarinnar svo að ég beindi talinu að henni, gætilega þó.
Við höfum ekki ennþá sæst
út af bölvans stoltinu,
sagði karlinn þá og horfði upp Frakkastíginn, þegar hann bætti við:
Skyldi vera skata kæst
í skúrnum uppi á holtinu?
Það var eins og hann hresstist allur við þessa hugsun og kvað með sínu lagi þegar hann stikaði upp stíginn:
Ég er að koma, kerling mín,
í kotið lága heim til þín;
í skammdeginu er skemmtan fín,
skata kæst og brennivín!
Síðan vitnar umsjónarmaður Vísnahornsins í ummæli Sigurðar Helga Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns í Fréttatímanum í gær (Sigurður Helgi er formaður Húseigendafélagsins og þjóðkunnur fyrir andstyggð sína á skötulykt í fjölbýlishúsum og reyndar hvar sem er):
„Þessi villimennska á Þorláksmessu er víst ekki gamall og gróinn siður, nema þá á Vestfjörðum þar sem vondur matur þykir góður. Það skyldi þó ekki vera að skötustækjan hefði stuðlað að fólksflótta að vestan?“
Fleira skötu- og kveðskaparkyns kemur við sögu í Vísnahorni Morgunblaðsins en í lokin er tilfærð vísa úr Vopnafirði, sem sögð er lýsa Þorláksmessumat „langt utan skötusvæðisins“:
Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn,
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.
Nánar hér um skötuna á Reykhólum að þessu sinni:
► Lions: Þorláksmessuskatan kemur frá Ísafirði