Tenglar

23. ágúst 2015 |

Listfórn til moldarinnar og myrkrar frjósemi hennar

Flateyjar-Freyr. Ljósm. flatey.is.
Flateyjar-Freyr. Ljósm. flatey.is.
1 af 2

Í hugum fjölmargra Flateyinga er Flateyjar-Freyr trékarl austast á eyjunni, sem er búinn að standa þar fyrir veðri og vindum um tugi ára. Í hugum barna og unglinga er þessi sami Freyr „typpakarlinn“ sem gaman er að heimsækja á sólríkum dögum og setja skeljar við og hengja á hann þara og fjörugróður. En í rauninni er Flateyjar-Freyr svo miklu, miklu meira, og saga hans bæði margslungin og áhugaverð, þannig að nauðsynlegt er að halda henni á lofti. Listaverkið Flateyjar-Freyr var gert af listamanninum Jóni Gunnari Árnasyni og var komið fyrir nærri þeim stað austast á Flatey sem heitir Torta en fáir þekkja með nafni.

 

Þetta er upphaf ítarlegrar umfjöllunar Gunnars Sveinssonar í Eyjólfshúsi í Flatey um Flateyjar-Frey myndlistarmannsins þjóðkunna Jóns Gunnars Árnasonar. Síðan segir hann:

 

Tilurð Flateyjar-Freys má leita aftur til sjöunda áratugar síðstu aldar þegar fjölmargir þá ungir og lítt þekktir listamenn, sem margir hlutu seinna almenna og jafnvel alþjóðlega viðurkenningu, listaspírur sem léku sér við listagyðjuna og náttúruskoðendur sem voru á undan sinni samtíð, sóttu Flatey heim og héldu þar til í mislangan tíma. Þetta var tími óformlegrar listsköpunar, leit að hinu margræða listformi, vangaveltur og íhugun um nútíð og framtíð í faðmi náttúrunnar og óhefts bóhemslífs þar sem ystu mörk tilverunnar voru könnuð. En þetta var líka tími frjórra hugrenninga um endurreisn Flateyjar, sem urðu kannski fæstar að veruleika.

 

Einn þessara listamanna var Jón Gunnar Árnason, sem dvaldi löngum í Flatey yfir sumartímann á árunum 1973-1983. Hann átti jafnan hússkjól í Vertshúsi hjá Ólafi Jónssyni, sem átti húsið á þessum tíma.

 

Síðar í greininni segir Gunnar í Eyjólfshúsi:

 

Það var sumarið 1973 að Jón Gunnar fann rekaviðadrumb rekinn á fjöru í Flatey. Úr þessum drumbi sem var kominn langt að skar hann út listaverkið Flateyjar-Frey. Í umsögn Ólafs Gíslasonar um listaverk Jóns Gunnars segir:

 

Flateyjar-Freyr er díonýsísk hugmynd, enda var frjósemisguðinn Freyr einn af Vönum og hafði ekki stöðu Ása. Afstaða hans til Ása var hliðstæð afstöðu Díonýsosar til Apollós. Annar var fulltrúi hinnar villtu náttúru og hinnar óbeisluðu frjósemi, hinn var fulltrúi hins stranga lögmáls sólarinnar og hins fullkoma skilnings. Flateyjar-Freyr er helgimynd, sem ætluð er til fórnarathafna. Eyjarbúar fengu sér gjarnan gönguferð út á Tortu til að færa Frey fórnir, og meðal þeirra var Guðbergur Bergsson, sem birti ljóðfórnir sínar til Freys í ljóðabókinni „Flateyjar-Freyr“ en bókin var tileinkuð Jóni Gunnari. Freyr var feyskinn og mjög jarðneskur í útliti, enda búinn að velkjast um úthöfin áratugum saman áður en hann hafnaði í Flatey. Verkið Flateyjar-Freyr var frá hendi Jóns Gunnars eins konar listfórn til hinnar jarðnesku moldar og myrkrar frjósemi hennar.

 

Við útkomu ljóðabókarinnar Flateyjar-Freyr sem kom út á vegum Máls og menningar 1978 sagði rithöfundurinn og ljóðskáldið Guðbergur Bergsson, að þetta séu ljóð um hrörnun og frjósemi. Eftirfarandi er haft eftir honum í Morgunblaðinu þegar bókin var endurútgefin árið 2008:

 

Þegar ég kom til Flateyjar var allt í niðurníðslu þar. Og þessi ljóð um Flateyjar-Frey eru á vissan hátt um hrörnun eyjunnar og líka um frjósemina sem var þar í eina tíð. Þannig að þetta rís einhvern veginn upp úr Frey sem er guð frjóseminnar en hann er líka sá sem eyðileggur. Þannig á vissan hátt er þetta táknrænt, ekki bara táknfræðilegt ljóð, ekki bara um Flatey, heldur líka almennt um heiminn og Ísland á þessum tíma. Sem var að leggjast mjög mikið í eyði.

 

Í Flatey var blómleg byggð en síðan fór fólkið og skildi húsin eftir. Og nú er þetta orðið fallegt byggðarlag þar sem nýja yfirstéttin á Íslandi – peningastéttin – býr til kvikmyndir. Núna eru þarna vel settir listamenn sem fara þangað til að búa til rándýrar bíómyndir, uppá margar milljónir, þar sem við bjuggum áður og áttum ekki krónu. Svona breytist tíminn.

 

► Meira hér: Flateyjar-Freyr – mikilvægi varðveislu

 

Flateyjarvefurinn

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31