Tenglar

9. nóvember 2011 |

Ljóðabók Manna í Mýrartungu væntanleg

Jón Snæbjörnsson (Manni). Takið eftir símanum og snúrunni - fyrir daga gsm!
Jón Snæbjörnsson (Manni). Takið eftir símanum og snúrunni - fyrir daga gsm!

Senn kemur út bók með ljóðum Jóns Snæbjörnssonar, sem væntanlega var best þekktur sem Manni í Mýrartungu. Hann var fæddur á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit 29. ágúst 1941 og andaðist í Reykjavík 24. janúar 2000. Foreldrar hans voru Snæbjörn Jónsson, bóndi á Stað, og kona hans, Unnur Guðmundsdóttir. Manni var næstelstur fimm bræðra. Elstur er hálfbróðirinn Sigurvin Ólafsson og yngri bræðurnir eru þeir Árni, Friðgeir og Eiríkur.

 

Manni útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri vorið 1962. Þann 17. júní 1964 kvæntist hann Aðalheiði Hallgrímsdóttur (Heiðu) frá Dagverðará í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi. Hann var ráðsmaður í Tilraunastöðinni á Reykhólum frá 1964 til 1967 og síðan bóndi í Mýrartungu II í Reykhólasveit og frjótæknir til ársins 1988, þegar þau hjónin þurftu að bregða búi sökum þverrandi heilsu hans.

 

Manni hafði alltaf mikinn áhuga á félagsmálum. Hann vildi hag allra sem bestan og jafnastan. Meðal annars var hann formaður Búnaðarfélags Reykhólahrepps í 12 ár, sat í stjórn Kaupfélags Króksfjarðar og var fulltrúi á fundum Stéttarsambands bænda. Hann var um tíma í stjórn Ungmennafélagsins Aftureldingar í Reykhólasveit og formaður þess í nokkur ár.

 

Ungur fór Manni að yrkja og til er að minnsta kosti eitt ljóð eftir hann 13 ára gamlan. Hann orti gjarnan erfiljóð um sveitunga sína og þær eru ófáar afmælisvísurnar hans og brúðkaupskvæðin. Ósjaldan var hann beðinn um að yrkja ýmis tækifærisljóð og aldrei fór neinn bónleiður til búðar.

 

Í ljóðum Manna er gjarnan ádeila á það sem honum fannst betur mega fara, hvort heldur það tengdist stjórnmálum, hersetu, ástinni eða virðingu fyrir hinu liðna.

 

          Eitt er sem ég eftir tók

          – að því flestir leita:

          Þeim sem lesa þessa bók

          það mun blessun veita.

 

Þeir sem vilja tryggja sér eintak í forsölu leggi 2.900 krónur inn á reikning nr. 0324-13-008811, kt. 191275-4119, og sendi staðfestingu á Ólínu Kristínu - olinak@vortex.is.

 

Meðfylgjandi mynd af Jóni Snæbjörnssyni er tekin um 1990 þegar dóttir hans og tengdasonur bjuggu á Svartagili í Norðurárdal. Þá voru gsm-símarnir ekki komnir ...

 

Facebook-síða: Manni - kveðskapur Jóns Snæbjörnssonar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31