Tenglar

14. apríl 2015 |

Ljósleiðaravæðing: Sveitarfélög og íbúar hefjist handa

Haraldur Benediktsson flytur erindi sitt. Ljósm. Rebekka Eiríksdóttir.
Haraldur Benediktsson flytur erindi sitt. Ljósm. Rebekka Eiríksdóttir.

Gestur á aðalfundi Félags sauðfjárbænda á Vestfjörðum, sem haldinn var á Reykhólum á föstudag, var Haraldur Benediktsson bóndi á Vestri-Reyni, þingmaður Norðvesturkjördæmis og lengi áður formaður Bændasamtaka Íslands. Þar ræddi hann um ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni og á Vestfjörðum sérstaklega.

 

Haraldur er formaður starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði fyrir réttu ári til að fjalla um regluverk fjarskiptamarkaðarins og gera tillögur til eflingar á fjarskiptum. Þetta var gert í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann, þar sem lögð er áhersla á lagningu ljósleiðara og bætt fjarskipti.

 

Starfshópurinn hefur þegar skilað ráðherra tillögum sínum. Meðal þeirra er tillaga um að gera nettengingar að grunnþjónustu, að gæði hennar og afköst verði að lágmarki 100 Mb/s (megabæt á sekúndu) og standi öllum íbúum landsins til boða, óháð búsetu.

 

Í árslok 2020 muni þannig nærfellt allir landsmenn eða 99,9% hafa aðgengi að tengingu sem afkastar 100 Mb/s með tilheyrandi gæðum, en til að ná þeim áfanga þarf að tengja tæplega 4000 staði. Þeir staðir sem falla utan við átakið fái fyrst um sinn lausn með annarri tækni, en lokatakmarkið er að allir hafi slíka tengingu. Þessir tæplega 4000 staðir eru fyrst og fremst í dreifbýli en eru í öllum landshlutum.

 

„Verði þetta raunin, að gera nettengingu að grunnþjónustu, eru opnaðir miklir möguleikar fyrir íbúa landsins til að nýta sér tölvutæknina til atvinnusköpunar, náms og afþreyingar,“ sagði Haraldur. „Ekki þarf að fjölyrða mikið um þörfina og hve mikla möguleika þetta gefur til eflingar á byggð og atvinnulífi á ýmsum stöðum.“

 

Starfshópurinn leggur til að verkið verði unnið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Í hlut ríkisins komi að fjármagna stuðning við verkið en sveitarfélögin undirbúi framkvæmdir heima fyrir, eins og val lagnaleiða og samninga við landeigendur, sjái um gerð lista yfir staði og tryggi þátttöku. Jafnframt annist sveitarfélögin greiningu á þörfum og leggi fram áætlanir um þróun byggðar.

 

Þá er í tillögum starfshópsins fjallað um samlegðaráhrif við aðrar veituframkvæmdir, en slíkt er hluti af úrræðum til að flýta ljósleiðaraframkvæmdum og gera þær ódýrari. Oftast er þar um að ræða lagningu á rafstrengjum í jörð og ekki síður hitaveituframkvæmdir.

 

Haraldur sagði að heimamenn á hverjum stað geti nú þegar hafist handa við nauðsynlegan undirbúning. Hann sagði að sveitarstjórnir séu hvattar til að kynna sér leiðbeiningar sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur látið vinna og séu gott vegarnesti um það hvernig standa má að því verkefni. Á Vestfjörðum eru um 200 staðir sem þarf að tengja, samkvæmt áðurnefndri greiningu, og meðalkostnaður á hverjum stað áætlaður (með 15% skekkjumörkum) um 2,2 milljónir króna.

 

„Því má ekki gleyma, að nú þegar hefur verið auglýst eftir tilboðum í lagningu á ljósleiðara um Djúp, vegna hringtengingar ljósleiðara um Vestfirði. Það er öryggismál og ekki síður veruleg endurbót á fjarskiptum í öllum landshlutanum. Nú vitum við ekki hver verður niðurstaðan í útboði Fjarskiptasjóðs, en sú framkvæmd lækkar heildarkostnað verulega. Íbúar og sveitarfélög ættu að fylgjast sérstaklega vel með næstu vikur og freista þess að leggja á sama tíma aðgangsnet, heimtaugar, á lagnaleiðinni,“ sagði Haraldur Benediktsson.

 

„Tillögurnar eru núna í höndum innanríkisráðherra og það er hennar að móta næsta skref. Hún mun nú undirbúa fjarskiptaáætlun til næstu ára og leggja hana fyrir Alþingi. Ég hef verið á allmörgum fundum vítt og breitt um landið undanfarnar vikur og get sagt að tillögum starfshópsins hefur verið mjög vel tekið. Það er mikill hugur í fólki að vinna að úrbótum í þessum málum. Skýrsla starfshópsins ber heitið Ísland ljóstengt og vísar til þess að heimili á landi geti verið nettengd með fastlínukerfi, sem er annað hvort ljósleiðari eða það sem sumir kalla ljósnet.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31