Tenglar

31. júlí 2008 |

Ljósmyndaleiðangur út í Breiðafjarðareyjar

Ágúst G. Atlason áhugaljósmyndari og margmiðlunarhönnuður á Ísafirði brá sér út í Breiðafjarðareyjar í veðurblíðunni – eins og fleiri – og tók myndir í safnið. Þetta var annar ljósmyndaleiðangur hans í Reykhólahrepp á stuttum tíma, en fyrr í mánuðinum ferðaðist hann um fastalandið og tók einkum landslagsmyndir í héraðinu. Líka myndaði hann starfsmenn Þörungaverksmiðjunnar við vinnu sína.

 

„Það var ákveðið í samstarfi við Markaðsskrifstofu Vestfjarða að fara út í eyjar með Birni Samúelssyni og ég ákvað að enda sumarfríið með allri fjölskyldunni þannig að við skelltum okkur saman í ferð", segir Ágúst. „Við byrjuðum á því að koma í Skáleyjar þar sem við hittum Jóhannes Geir og fengum kaffi og köku og síðan rölti ég um og tók nokkrar myndir. Veðrið var alveg stórkostlegt. Strákurinn veiddi á bryggjunni og fékk stóreflis þorsk sem honum þótti sárt að þurfa að sleppa!"

 

Svo haldið í Flatey. „Mér brá hreinlega að koma þarna. Þetta var eins og að koma inn í aðra öld. Ég hafði aldrei komið í Flatey nema að bryggjunni á leið yfir Breiðafjörðinn með Baldri og eiginlega ekki séð neitt nema stóra verksmiðjuhúsið. Við gengum inn í þorpið og fengum okkur að borða. Þetta var allt eitthvað svo framandi, eiginlega eins og að vera úti í Danmörku nema hvað allt var tíu sinnum hægara. Síðan rölti ég hús úr húsi og bankaði upp á og tók myndir og einbeitti mér að byggð og mannlífi. Alls staðar var ég boðinn velkominn og mátti taka eins mikið af myndum og ég vildi. Á þessu myndatökurölti var ég á fjórða klukkutíma meðan konan mín og krakkarnir undu sér annars staðar. Þetta var rosalega skemmtilegt. Það er alveg einstakt að fara með honum Birni og njóta alls sem fyrir augu ber í svona ferð."

 

Ágúst G. Atlason er hér í upphafi titlaður margmiðlunarhönnuður. Í því sambandi má nefna, að í starfi sínu hjá Snerpu á Ísafirði hannaði hann einmitt þennan nýja vef Reykhólahrepps. Hvað ljósmyndirnar varðar tekur hann meðal annars að sér pakkaverkefni fyrir einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög. Ágúst er með heimasíðu þar sem gaman er að skoða sig um og þar má jafnframt finna hvernig hægt er að hafa samband við hann.

 

Myndirnar sem hér fylgja tala sínu máli um ferðina út í Breiðafjarðareyjar. Síðasta myndin er reyndar af Gústa sjálfum ...

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31