Tenglar

15. febrúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ljósnetið: Hreppsnefnd vill fá upplýsingar

„Vegna frétta af tengingum við ljósnet Símans fagnar hreppsnefnd þeirri ákvörðun Símans að netvæða landsbyggðina og leggja þar með sitt lóð á vogarskálarnar við að jafna aðgang fólks að háhraðaneti, en harmar það jafnframt fyrir hönd íbúa hreppsins að vera ekki í þeim hópi sem fær tengingu að þessu sinni. Hreppsnefnd óskar þess að fá kynningu á ljósneti Símans og áætlunum Símans um frekari ljósnetvæðingu. Sveitarstjórn óskar þeim heimilum sem fá aðgang að ljósneti Símans árið 2013 til hamingju með það.“

 

Ofanrituð bókun, sem Gústaf Jökull Ólafsson lagði fram á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps í gær, var samþykkt samhljóða.

 

Fram kom í frétt hér á vefnum í lok síðasta mánaðar, að tenging Reykhóla eða byggðanna í Reykhólahreppi almennt við ljósnetið er ekki komin á dagskrá og ekkert liggur fyrir hvenær af henni gæti orðið. Líka kom fram, að á þessu ári er ætlunin að ljósnetsvæða 53 þéttbýlisstaði á landinu.

 

Í þeim hópi eru níu af þrettán byggðakjörnum á Vestfjarðakjálkanum: Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður, Hnífsdalur og Bolungarvík. Auk Reykhóla eru Hólmavík, Drangsnes og Súðavík ekki á dagskrá Símans í þessum efnum.

 

„Ástæða þess að Hólmavík er ekki meðal þessara 53 staða sem ákveðið var að setja ljósnetið upp á í ár er sú að þangað liggur enginn ljósleiðari,“ sagði Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við fréttavefinn bb.is á Ísafirði fyrir skömmu. „Þar sem engar fullnægjandi tengingar liggja að staðnum höfum við skoðað hvort hægt væri að nota örbylgjutæknina til að veita fulla sjónvarpsþjónustu og auka nethraða á Hólmavík. Niðurstaðan liggur ekki fyrir,“ sagði hún þar einnig.

 

Þess má geta, að ljósleiðari liggur um endilangan Reykhólahrepp og þar á meðal framhjá Reykhólum.

 

Ljósnetið hefur í för með sér meiri hraða, öflugra net og bætta sjónvarpsþjónustu.

 

 28.01.2013 Reykhólar: Ljósnet Símans ekki komið á dagskrá

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31