Lokahátíð Þjóðleiks á Hólmavík 30. apríl - 1. maí
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni að frumkvæði Þjóðleikhússins og í góðu samstarfi við menningarráð og marga aðra aðila á landsbyggðinni.
Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Lokahátíðir eru haldnar að vori þar sem allar sýningar í hverjum landsfjórðungi koma saman á stórri leiklistarhátíð. Í ár er Þjóðleikur 10 ára og verður haldinn með pompi og pragt.
Lokahátíðin Þjóðleikur NorðVestur verður haldin hátíðleg í Félagsheimilinu á Hólmavík 30. apríl og 1. maí næstkomandi að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur. Þar koma saman leikhópar frá Strandabyggð, Kaldrananeshreppi, Borgarnesi, Ísafirði, Snæfellsbæ og raunar Snæfellsnesi öllu. Sett verða upp leikverkin Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason. Auk þess verður skrúðganga leidd af nýjum slökkviliðsbíl bæjarins, kvöldvaka, sundlaugarpartý og mótttaka á vegum Þjóðleikhússins svo fátt eitt sé nefnt.
Allir eru velkomnir að fylgjast með þessari tveggja daga listahátíðhátíð og kynnast þar listafólki framtíðarinnar en armband á allar sýningar kostar litlar 2000 krónur.
Með þessu bréfi langar okkur að bjóða fulltrúum fjölmiðla á hátíðina og/eða að fjalla um hana bæði fyrir og eftir. Hikið ekki við að hafa samband til að nálgast frekari upplýsingar.
Verkefnisstjóri Þjóðleiks af hálfu Þjóðleikhússins er Björn Ingi Hilmarsson og verkefnastýra Þjóðleiks NorðVestur er Esther Ösp Valdimarsdóttir.
Facebook síðu hátíðarinnar má finna hér: https://www.facebook.com/events/803093143379530/?active_tab=about
Upplýsingar frá Þjóðleikhúsinu:
http://www.leikhusid.is/unga-folkid/faersla/thjodleikur