Lokið verði hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum
Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) fagna þeirri jákvæðu umræðu sem risin er um það brýna verkefni að treysta raforkuöryggi Vestfirðinga. Góðar undirtektir þingmanna Norðvesturkjördæmis sem komið hafa fram skipta miklu máli í því sambandi og ekki síður brýningar sveitarstjórnarmanna og sveitarfélaga á Vestfjörðum sem kalla eftir langþráðum aðgerðum svo hefja megi framkvæmdir við virkjun Hvalár. Forsenda þeirra framkvæmda er að bætt verði við afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi fyrir raforku virkjunarinnar.
Stjórn SASV tekur heilshugar undir ályktun sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sendi nýlega til Landsnets, ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og Orkustofnunar þar sem skorað var á þessa aðila að þeir tryggi að bætt verði við afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi. Stjórn SASV telur einsýnt sá staður verði í nágrenni Nauteyrar. Verði sá staður valinn skapast tækifæri til að færa raforkumál á Vestfjörðum til nútímans og ljúka hringtengingu rafmagns á bæði norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.
Hér með skorar stjórn SASV á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að tryggja að unnið verði samkvæmt þeim tillögum sem að ofan greinir.
Samþykkt í stjórn SASV 3. mars 2016.