Tenglar

1. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Lokið við hleðslu kirkjugarðsveggjar á Reykhólum

Stund milli stríða undir kirkjugarðsvegg: Ari, Grétar og Ólafur Einir.
Stund milli stríða undir kirkjugarðsvegg: Ari, Grétar og Ólafur Einir.
1 af 15

Hleðslumeistarinn landskunni Ari Jóhannesson lauk fyrir helgina ásamt samverkamönnum sínum við garðhleðslu kringum kirkjugarðinn á Reykhólum. Hleðslan er reyndar aðeins á tvo vegu eða við vesturhlið og norðurhlið kirkjugarðsins. Þeim sem séð hafa þykir þetta hið mesta snilldarverk. Helstu samstarfsmenn Ara voru þeir Grétar Jónsson frá Einarsstöðum í Vopnafirði og Ólafur Einir Smárason frá Borg í Reykhólasveit, auk bróður Ólafs, Brynjólfs Víðis Smárasonar verktaka á Reykhólum með tæki sín. Ari veit ekki um fjölda steinanna sem notaðir hafa verið, en hann er legíó, eins og stundum var komist að orði.

 

Grjótið er samtíningur úr ýmsum áttum, en mestur hlutinn kom frá Kirkjubóli vestra í Kjálkafirði við vesturmörk Reykhólahrepps, þar sem Vegagerðin hefur síðustu misserin unnið að nýlagningu vegarins og stundað sprengingar. Svolítill hluti kom úr námunni í Króksfjarðarnesi og síðan komu tveir bílar af grjóti úr námu rétt fyrir sunnan Hólmavík. Þökurnar og strengurinn komu hins vegar frá Tuma á Reykhólum.

 

– Hleðslan er svo ótrúlega slétt – höggvið þið grjótið til?

 

„Já, við reynum nú að vísu að höggva það sem minnst, en það verður samt að gera stundum. Listamaðurinn Páll á Húsafelli sagði að það væri mikið atriði að steinarnir fengju að halda andlitinu. Ég hef reynt að gera það,“ segir Ari. „En það er þægilegra að hlaða þetta þegar maður er með streng á milli. Ef svo væri ekki, þá værum við enn að baksast þarna.“ Strengur er torf sem haft er milli steinalaganna í hleðslunni.

 

Ari Jóhannesson er búinn að vera við hleðslustörf af þessu tagi alveg stanslaust í kringum tuttugu og fimm ár. Væntanlega hefur hann lært af föður sínum, Jóhannesi Arasyni frá Múla í Kollafirði (1913-2009), sem fæddur var í Seljalandi í Gufudalssveit.

 

„Já, mikið til lærði ég nú af honum, en síðan hef ég fengið hitt og þetta frá öðrum, eins og Sveini gamla frá Hrjóti á Fljótsdalshéraði og fleirum. Þegar einhver hefur komið með nýjar hugmyndir, þá hefur maður reynt að taka þær upp.“

 

Þess má geta, að Sveinn frá Hrjóti var faðir Þórarins í Hólum í Reykhólasveit. „Sveinn var skemmtilegur kall,“ segir Ari.

 

Fyrir síðustu jól kom út bók um Jóhannes föður Ara eftir Sigrúnu Elíasdóttur sagnfræðing, bróðurdóttur Ara, og nefnist hún Kallar hann mig, kallar hann þig. Meðal viðfangsefna Jóhannesar um dagana var grjót- og torfhleðsla víða um land. „Bókin hefur fengið mjög góða dóma,“ segir Ari. „Hann hafði sína kosti og sína galla eins og við höfum öll.“

 

– Þú ert þjóðkunnur af hleðslustörfum þínum eins og faðir þinn var ...

 

„Ja, ég er náttúrlega búinn að fara hringinn í kringum landið nokkrum sinnum í þessum verkefnum. Pabbi fór reyndar ekki eins víða og ég hef gert.“

 

Myndirnar sem hér fylgja ættu að sýna nokkuð vel úr ýmsum áttum hvernig kirkjugarðsveggurinn nýi lítur út og hvernig fyllt hefur verið að honum að innanverðu og tyrft yfir. Meðal annars er mynd sem tekin var ofan úr kirkjuturninum. Allar myndirnar nema tvær voru teknar í fyrradag. Myndirnar af Ara og samverkamönnum hans voru teknar fyrir þremur vikum þegar mikið var ennþá óunnið.

 

Athugasemdir

Kristín og Máni, mivikudagur 03 september kl: 10:36

Frábært verk og prýðir Reykhóla, enda hleðslumennirnir algerir snillingar.
Takk fyrir.
Dídí og Máni.

Bjarni Þór Ingvarsson, fstudagur 05 september kl: 22:32

Ég bý í Noregi.Hef verið síðan 2006. Ég er stoltur yfir að sjá hversu vel er framkvæmt og viðhald er með sóma á kirkjugörðum. Sérlega í smærri sóknum.
Hér í landi ( Noregi, Buskerut) er fátt um viðhald á opinberum svæðum. Fólk sem býr hér og ferðast til Íslands , sér snyrtimennsku og dugnað hvarvetna.
Hef séð margar hleðslur eftir Ara Jóhannesson og fundist þær allgóðar. Hann kann sitt verk og tekur mið af sögu og náttúru í sínum störfum.
Bestu kveðjur. Bjarni Þór Ingvarsson

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31