Loksins: GSM-sendir við Bjarkalund
Í dag, föstudaginn 28. mars 2008, var kveikt á nýjum sendi frá Vodafone við Hótel Bjarkalund í Reykhólasveit, sem þýðir betra fjarskiptasamband í næsta nágrenni við hótelið. Sendinum var komið fyrir til bráðabirgða við Bjarkalund, en vonir standa til að varanlegur sendir verði kominn upp á Hofstaðaháls við Þorskafjörð og nær þá að miðla yfir stærra svæði. Þetta er hluti GSM-útboði 2, sem Vodafone fékk og verður það opið fyrir alla, bæði notendur Vodafone og Símans.
Þar með er komið GSM-samband á þessu svæði Reykhólasveitar, en nýlega fékk Árni Sigurpálsson hótelstjóri á Bjarkalundi einnig ADSL-tengingu, sem er stórbót fyrir rekstur hótelsins, sem áður þurfti að notast við rándýra ISDN-tengingu bæði fyrir bensíndælur og tölvur. Á liðnum sumrum kom það iðulega fyrir að gestir sneru frá og hættu við að gista á Hótel Bjarkalundi þegar þeir uppgötvuðu að þar var hvorki GSM-samband né ADSL-nettenging.
Á næstu dögum verður komið á langdrægara sambandi frá sendi í Flatey, sem mun stórbæta fjarskiptasamband við Breiðafjörðinn. Árni Sigurpálsson hótelhaldari í Bjarkalundi gerir því skóna að það tengist því kannski að upptökur séu að byrja á grínþáttunum Dagvaktinni, að verið sé að net- og GSM-væða svæðið. Í fyrrasumar var einmitt Flatey á Breiðafirði GSM-vædd áður en upptökur á kvikmyndinni Brúðgumanum hófust.