Loksins bílfært milli svæða á Vestfjörðum
Bílvegurinn milli norðursvæðis og suðursvæðis Vestfjarða opnaðist í dag, þegar lokið var að ryðja Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Þessi leið er því opin núna í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Akstur milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar, svo dæmi sé tekið, styttist við þetta um liðlega 450 km miðað við að farið sé um Laxárdal en kringum 500 km sé miðað við leiðina um Brattabrekku og um Holtavörðuheiði. Samkvæmt snjómokstursreglum er gert ráð fyrir því að opna Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði 20. mars. Vegna snjóflóðahættu á Hrafnseyrarheiði reyndist ekki unnt að opna hana fyrr en nú og meðan hún er lokuð er fremur tilgangslítið að opna Dynjandisheiði.
Þess má geta, að í síðustu viku sendi byggðarráð Dalabyggðar frá sér yfirlýsingu, þar sem vegurinn um Laxárdal var sagður óboðlegur eins og ástand hans er núna. „Færa þarf samgönguleiðir innan svæðisins frá því að vera moldarslóðar í það að geta talist boðlegar á 21. öldinni", sagði í bókun sem send var þingmönnum NV-kjördæmis, samgönguráðherra, vegamálastjóra og umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Norðvesturlandi.
Sjá einnig:
Færð og veður á Vestfjörðum - kort Vegagerðarinnar sem stöðugt er uppfært.