Tenglar

15. febrúar 2017 | Umsjón

Lómurinn á Langavatni og Lómatjörn

Lómur á Langavatni neðan við Reykhóla.
Lómur á Langavatni neðan við Reykhóla.
1 af 2

Fuglaverndarfélagið hefur tekið upp á því að velja fugl ársins. Í ár er það lómurinn sem hreppir þessa virðulegu nafnbót. Stefnt er að því að velja árlega fugl sem Fuglaverndarfélagið vill vekja sérstaka athygli á meðal félagsmanna, almennings og fjölmiðla. Fólk er hvatt til að senda Fuglaverndarfélaginu upplýsingar um lóminn.

 

Sjá hér á ruv.is ítarlega frétt um þetta og margvíslegar upplýsingar um þennan sérstæða spáfugl. Þar er líka hægt að hlusta á lóminn.

 

Á göngusvæðinu fyrir neðan Reykhólaþorp eru bæði Lómatjörn og Langavatn. Oft má sjá þar lóma á sundi og heyra ámátlegt væl þeirra.

 

Óvíða ef nokkurs staðar á landinu er fuglalíf öllu fjölskrúðugra en á Reykhólasvæðinu. Engin tegund yfirgnæfir aðra, líkt og gerist við sérstakar aðstæður eins og í fuglabjörgunum miklu, heldur er hér sitt lítið af hverju, ef svo má segja. Ástæðan er einstaklega fjölbreytt lífríki þar sem ótalmargar ólíkar tegundir finna hver sitt kjörlendi. Hvergi á landinu er útfiri eins mikið og við innanverðan Breiðafjörð og lífríkið á leirunum sem upp koma á fjöru er mörgum fuglategundum gósenland.

 

Á svæðinu neðan við Reykhóla er bæði víðáttumikið mólendi og mýrlendi og tjarnir og vötn þar sem ýmsar fáséðar fuglategundir halda sig. Reykjanesið sjálft þar fyrir ofan er svo að mestu fjalllendi með hömrum og hálendissvæði þar sem enn aðrar tegundir verpa.

 

Frá tjaldsvæðinu við Grettislaug á Reykhólum, þar sem er hin besta aðstaða fyrir ekki aðeins tjöld heldur einnig húsbíla, tjaldvagna og slíkt, er nokkur hundruð metra göngustígur niður að Langavatni þar sem fólk getur setið í fuglaskoðunarhúsi og virt fyrir sér lífið á vatninu án þess að trufla fuglana. Svo er hægt að ganga daglangt og náttlangt um þetta svæði og önnur í héraðinu og virða fyrir sér bæði fugla og aðrar dásemdir náttúrunnar.

 

Myndirnar sem hér fylgja af lómum á Langavatni neðan við Reykhóla voru teknar á Jónsmessunni sumarið 2008.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31