Lostalengjur, álfasulta og mysusoðin bláskel
Vestfirðir verða kynntir á ferðaþjónustusýningunni „Ferðalög og frístundir" sem verður um helgina í Laugardalshöll, en Markaðsstofa Vestfjarða verður með bás á sýningunni. Jafnframt fer fram Matreiðslukeppni landshlutanna, en verkefnið Veisla að vestan er þátttakandi í báðum þessum viðburðum. Í matreiðslukeppninni mun Guðmundur Helgason matreiðslumeistari á Hótel Núpi keppa fyrir hönd Vestfjarða og hefur verið settur fram glæsilegur matseðill þar sem nánast eingöngu er stuðst við hráefni frá Vestfjörðum. Má þar nefna lambakjöt, lostalengjur, bláskel, reykta tindabikkju, plokkfisk, ber, krydd, sultur, ábrystir, rjóma og plómur.
Framleiðendur í Veislu að vestan leggja til hráefni í keppnina. Þátttakendur í því verkefni eru um þrjátíu talsins og eiga það sameiginlegt að vinna með vestfirskt hráefni. Það kom aðstandendum verkefnisins skemmtilega á óvart hversu mikið er í boði hérna fyrir vestan og hefði hæglega verið hægt að búa til nokkra matseðla úr því afbragðshráefni sem framleitt er á svæðinu.
Myndin frá útreiðartúr í Örlygshöfn sem hér fylgir er ein þeirra mynda sem Markaðsstofa Vestfjarða notar til að kynna Vestfirði. Höfundur hennar er Ágúst G. Atlason (gusti.is).
Hér fyrir neðan er vestfirski matseðillinn í keppninni en til stendur að bjóða rétti af honum á veitingastöðum á Vestfjörðum í sumar.
Forréttur: Vestfirsk fiskiþrenna
Mysusoðin bláskel, landa, einiberjasmjörsósa
Reykpækluð tindabikkja, rófumús, hafrakex, gulmaðra
Plokkfiskur, rúgbrauð
Aðalréttur: Vestfirsk lambaþrenna
Lambahryggvöðvi, blóðberg
Lostalengjur, álfasulta, rjómaostur
Kótiletta í raspi, skessujurt, salvía, kerfilsfræ
Kartöfluþrenna (soðsteikt, mús, flögur), sykurbrúnaðar gulrætur, braseruð sellerírót, lambasoðsósa
Eftirréttur: Vestfirsk eftirréttarþrenna
Ábrystir að hætti franskra duggara
Bláberjaís, stökkt kex
Pönnukaka, berjarjómi
Sjá einnig:
28.11.2008 Matartengd ferðaþjónusta - nafnasamkeppni
13.01.2009 Vestfirska matarverkefnið: Veljið bestu tillögurnar