Lukka úr Sviðnum - hleypt í Höskuldsey
Faðir minn var skemmtilegur frásagnarmaður. Oft fékk ég að vera nærstaddur þegar karlarnir komu saman og ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Skemmtilegast þótti mér þegar sögumenn eins og Sveinn Gunnlaugsson, Sveinbjörn Guðmundsson og jafnvel Pétur sterki Einarsson sátu að skrafi við föður minn.
Slík samtöl svo og lifandi frásagnir pabba og ömmu urðu þess valdandi, að mér finnst ég hafa þekkt nafngreindar persónur fyrri aldar eins vel og nágranna okkar úr hinum eyjunum. Þess vegna er þessi kafli úr sögu Lukku, sem fjallar um áhlaupsveður á Bjarneyjamiðum, lifandi í minni mínu vegna frásagnar hans. Mér fannst lengi líkt og ég hefði sjálfur verið viðstaddur.
Þetta kemur fram í frásögn sem Nikulás Jensson úr Breiðafjarðareyjum (1935-2004) skráði á góunni árið 2000. Segir þar frá fiskiróðri föður hans, Jens Nikulássonar bónda í Sviðnum, og háseta hans og vinnumanns, Sumarliða Sigurðssonar, að áliðinni góu árið 1941 eða fyrir réttum 75 árum.
Lukka var opinn súðbyrðingur, upphaflega smíðuð af Eyjólfi bónda Ólafssyni í Sviðnum. Bátinn smíðaði hann fyrir sjálfan sig heima í Sviðnum árið 1880. Það var gamalla manna mál að Lukka hefði verið snotur skekta, lítill sexæringur og góður siglari.
Lukka var fyrsti seglbáturinn í Vestureyjum sem breytt var í vélbát. Það var árið 1925. Áður hafði Eyjólfur í Sviðnum smíðað fyrsta mótorbátinn þar fyrir stjúpson sinn, Guðmund Bergsteinsson kaupmann í Flatey.
Frásögnina má lesa hér á vef Framfarafélags Flateyjar.