Mæla með Ástu Sjöfn í stöðu skólastjóra
Mennta- og menningarmálanefnd Reykhólahrepps leggur til við sveitarstjórn, að Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir kennari og settur skólastjóri verði ráðin skólastjóri Reykhólaskóla. Þetta var samþykkt samhljóða á fundi nefndarinnar í gær. „Fenginn var ráðgjafi frá Capacent til að hafa umsjón með úrvinnslu umsókna og samantekt upplýsinga um starf skólastjóra Reykhólaskóla. Eftir að hafa farið yfir umsóknir með hliðsjón af ráðgjöf Capacent er ljóst að aðeins einn aðili uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda að mati nefndarinnar,“ segir í bókun.
Rökstuðningur nefndarinnar fyrir tillögu sinni til sveitarstjórnar er á þessa leið:
Ásta Sjöfn hefur starfað við Reykhólaskóla í 15 ár sem kennari og staðgengill skólastjóra. Frá nóvember 2013 hefur hún starfað sem skólastjóri. Hún þekkir vel til innra starfs skólans, starfsfólks, nemenda og foreldrasamfélags. Ásta Sjöfn hefur lokið B.Ed. sem grunnskólakennari en áður hafði hún lokið námi í rekstrarfræði og hefur því þekkingu á stjórnun og rekstri. Ásta Sjöfn hefur átt gott samstarf með starfsfólki skólans, hún er vel liðin, þægileg í samstarfi og hefur náð góðri liðsheild í skólanum þann tíma sem hún hefur starfað sem skólastjóri. Ásta Sjöfn leggur áherslu á að auka flæði á milli leikskóla- og grunnskólastigs og jafnframt endurmenntun starfsfólks.
Til þess að tillaga mennta- og menningarmálanefndar um ráðningu Ástu Sjafnar öðlist gildi þarf sveitarstjórn að staðfesta hana.
Ásgeir Överby, fimmtudagur 26 jn kl: 07:46
Hvað skyldi "ráðgjöf" Capacent hafa kostað hreppsbúa ..? - Ef fulltrúar í mennta-og menningarmálanefnd geta ekki ráðið skólastjóra án aðstoðar krakkanna í Capacent, þá eiga þeir ekki að gefa kost á sér í nefndina ....