Mælt með sameiningu við Reykhólahrepp og Strandir
Helst er mælt með sameiningu Dalabyggðar við nágrannasveitarfélög, í skýrslu um sameiningarkosti á Vesturlandi sem gerð hefur verið fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og kynnt var á aðalfundi samtakanna í Búðardal í gær. Mælt er með sameiningu Dalabyggðar við Reykhólahrepp og Strandabyggð og þar næst með sameiningu allra sveitarfélaganna á Snæfellsnesi. Sameining Akraness og allra sveitarfélaga í Borgarfirði, svokölluð Akraborg, er talinn síðri valkostur þó að ávinningur gæti orðið allnokkur. Sísti kosturinn er talinn sameining lítilla sveitahreppa við stóru byggðakjarnana.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:
Eftir ítarlega greiningu á áhrifum ýmissa kosta á þjónustu, lýðræði og fjárhag treysta skýrsluhöfundar sér ekki til að taka afstöðu til þess hvort sameiningar muni skila hreinum ábata fyrir samfélagið vegna þess að sumir þættirnir eru huglægir. Hins vegar er bent á hvaða sameiningar séu æskilegar og hverjar ekki.