Málaði tvo og hálfan kílómetra af tréverki
„Ég hafði hana tvílita, mér fannst það svolítið einhæft að hafa bara einn lit,“ segir Jón Þór Kjartansson á Reykhólum, starfsmaður Reykhólahrepps. Í fyrradag lauk hann við að mála Eyrarrétt í Kollafirði, eina af helstu fjárréttum héraðsins, en verkið tók sex daga. Til að áætla hversu mikla málningu skyldi panta sló hann máli á tréverkið í réttinni og reiknaði síðan. Reyndist það vera um 2.500 lengdarmetrar eða um tveir og hálfur kílómetri.
Eftir því sem Jón veit best mun vera um aldarfjórðungur frá því að réttin var máluð síðast enda drakk gleypur viðurinn í sig gríðarmikið af málningu. Á myndunum má sjá réttina fyrir og eftir.
Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri Reykhólahrepps, laugardagur 06 september kl: 16:09
Gott verk Jón Þór!