Tenglar

8. október 2015 |

Málefni fatlaðs fólks: Mikill vandi vegna fjárskorts

Sveitarfélög innan Fjórðungssambands Vestfirðinga eru níu. Kort: lmi.is.
Sveitarfélög innan Fjórðungssambands Vestfirðinga eru níu. Kort: lmi.is.

Sextugasta Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið á Patreksfirði 2. og 3. október og sóttu það um 40 fulltrúar vestfirskra sveitarstjórna ásamt gestum. Eitthvert helsta viðfangsefni þingsins að þessu sinni voru málefni fatlaðs fólks. Hér fyrir neðan er stiklað á stóru varðandi ályktanir þingsins, en neðst er tengill á allar ályktanir þess ásamt greinargerðum með sumum þeirra.

 

Í ályktun þingsins um málefni fatlaðs fólks vilja sveitarfélögin á Vestfjörðum undirstrika að þau telja málaflokkinn best kominn í höndum sveitarfélagana með samstarfi gegnum núverandi fyrirkomulag með byggðasamlagi (BsVest). Staða málaflokksins hefur hins vegar breyst mikið frá því að sveitarfélögin tóku við honum árið 2011, en þjónustustig hefur hækkað samfara auknum kröfum. Sveitarfélögin hafa leitast við að hafa þjónustuna í samræmi við lög og reglugerðir sem ríkið hefur sett, en mikill vandi hefur skapast þar sem fjármagn til Vestfjarða hefur ekki verið í samræmi við kröfur um aukið þjónustustig. Sveitarfélögin á Vestfjörðum vilja því brýna stjórnvöld að tryggja fullnægjandi fjármagn, til framtíðar, til reksturs BsVest.

 

Sveitarstjórnarmenn vilja árétta að endurmat þurfi á jöfnunarkerfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að halda megi úti faglegri þjónustu við fatlað fólk í heimabyggð. Ef skera á niður þjónustu sem er fyrir hendi nú þegar, þarf ríkið að koma með tillögur hvernig það sé útfært, án þess að það sé andstætt lögum og reglugerðum um þjónustu við fatlað fólk. Ef aukið fjármagn fæst ekki frá ríkinu fyrir árið 2015 og komandi ár, þannig að sveitarfélögin á Vestfjörðum geti veitt þjónustu í samræmi við lög og reglugerðir og þjónustuþarfir fólks, sjá sveitarfélögin sér ekki annað fært en að taka upp viðræður við félagsmálaráðherra um að málaflokkurinn færist aftur til ríkisins.

 

Þingið lýsir í ályktun miklum áhyggjum af stöðu Heilbrigðsstofnunar Vestfjarða vegna þeirra fjárveitinga sem stofnuninni eru settar í frumvarpi til fjárlaga 2016. Í ályktun um framhaldsskólann er sjónum beint sérstaklega að stöðu Menntaskólans á Ísafirði, þar sem gerð er sú krafa að starfsemi skólans verði tryggð sem verknáms- og bóknámsskóli. Einnig er í annarri ályktun bent á mikilvægi framhaldsnáms á tónlistarstigi. Þingið samþykkti einnig ályktanir er varða forgangsröðun í uppbyggingu innviða Vestfjarða, samgöngur, fjarskipti og orkumál, þar sem Hvalárvirkjun stendur miðlægt, og ályktun um öryggismál sjófarenda.

 

Þingið fjallaði einnig um breytingar á samþykktum Fjórðungssambandsins sem taka gildi núna um áramótin, sem fela m.a. í sér aukið samráð með aðildarsveitarfélögum um starfsemi Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þingið samþykkt síðan að fela stjórn sambandsins að útfæra víðtæka stefnumörkun í starfi sambandsins á grunni málaflokka sveitarfélaga og leggja fyrir næsta Fjórðungsþing.

 

Ályktanir þingsins ásamt greinargerðum (pdf).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31