Tenglar

21. maí 2016 |

„Mamma verður fljót að koma honum í fyrri hold“

Rauðhærða tígrisdýrið rólynda.
Rauðhærða tígrisdýrið rólynda.

Kötturinn Eldibrandur sem hér var lýst eftir er kominn í leitirnar eftir viku á vergangi. Eftir að greint var frá hvarfi hans hafði fólk samband og kvaðst hafa séð til ferða hans á Reykhólum. „Hann virðist hafa hitt annan kött í nágrenni við Reykjabrautina en þeim ekki komið vel saman. Þess vegna hefur hann sennilega forðað sér alveg hinumegin í þorpið þar sem nokkrir sáu til hans núna síðustu daga,“ segir Una Ólöf Gylfadóttir.

 

„Svo ætlaði mamma að kíkja eftir honum seint í gærkvöldi og þá heyrði hún mjálmið í honum undan bílnum, svo hann hefur á endanum ratað heim. Honum hefur ekki orðið meint af, en hefur horast aðeins, en mamma verður fljót að koma honum í fyrri hold, og gott betur, ef ég þekki hana rétt. Við þökkum þeim sem veittu upplýsingar, það róaði mann töluvert og minnkaði leitarsvæðið til muna.“

 

_____________________________________

 

Á það skal minnt, sem hefur stundum áður verið nefnt, að fólki er velkomið er að nýta þennan vef fyrir tilkynningar eða smáauglýsingar eða „smáfréttir“ af hvaða tagi sem er. Reyndar er það engin „smáfrétt“ þegar elskaður köttur hverfur, a.m.k. ekki fyrir þá sem næst honum standa.

 

Fólk er beinlínis hvatt til þess að notfæra sér vefinn þó að því finnist kannski um algera smámuni að ræða. Ekki bara til að auglýsa eftir ketti (eða auglýsa kött), heldur líka til dæmis að auglýsa eftir hinum og þessum hlutum til daglegs brúks eða auglýsa að slíkt sé í boði. Og varðandi smáfréttir skal þess getið, að „smáfrétt“ getur í rauninni verið bæði stærri (og skemmtilegri) en stórfrétt.

 

Rétt eins og þessi litla frétt um rólyndisköttinn rauðhærða sem loksins rataði aftur þangað sem hans beið góður viðurgerningur eftir erfiða útivist og áhyggjur fjölskyldu hans.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31