Tenglar

10. janúar 2017 | Umsjón

Mannamót 2017: Sóknarfærin eru á landsbyggðinni

Frá Mannamóti 2016.
Frá Mannamóti 2016.

Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2017 í Reykjavík fimmtudaginn 19. janúar. Tilgangurinn er að auka dreifingu ferðamanna um allt land með því að mynda og efla tengsl milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna til landsins seinni ár eru enn mörg ónýtt sóknarfæri á landsbyggðinni og ferðaþjónustan þar í stakk búin að taka á móti fleiri gestum.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá markaðsstofum landshlutanna. Þar segir ennfremur:

 

Þetta er í fjórða sinn sem markaðsstofurnar taka höndum saman og setja upp viðburðinn Mannamót fyrir samstarfsfyrirtæki sín. Tilgangurinn er að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustu-aðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu og markmiðið að vinna að dreifingu ferðamanna um landið allt og efla uppbyggingu heilsársferðaþjónustu úti á landi.

 

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og talskona Mannamóta, segir að tækifærin séu mörg í ferðaþjónustunni úti á landi og hægt sé að taka á móti mun fleiri ferðamönnum en gert sé nú. „Það er óþarfi að hægja á straumi ferðamanna til landsins,“ segir hún. „Það þarf bara að beina honum lengra út á landið.“

 

Hún segir að þótt þróunin þokist í rétta átt sé mikil árstíðasveifla víða á landsbyggðinni og erfiðlega gangi að reka ferðaþjónustufyrirtæki utan háannatímans á sumrin. Eitt af hlutverkum Mannamóta sé að sýna fram á að fjölda vel rekinna ferðaþjónustufyrirtækja sé að finna á landsbyggðinni sem vel geti þjónustað mun fleiri viðskiptavini en gert er í dag.

 

Margt spennandi verður til sýnis á Mannamótum í ár og segir Arnheiður að það veki athygli hversu mikla nýsköpun megi finna hjá þátttakendum á sýningunni. Oft séu þetta einfaldar hugmyndir sem gerðar eru spennandi með frumlegri og hugmyndaríkri nálgun. Sem dæmi nefnir hún bjórtúrisma á Norðurlandi, hundasleðaferðir og torfhesthús sem menn hafa prófað sig áfram með fyrir norðan og vakið athygli út fyrir landsteinana.

 

Þá séu dæmi um fyrirtæki sem með hugmyndaauðgi hafa gert sér mat úr hindrunum í umhverfinu, ekki síst á veturna þegar allra veðra er von. Á Reykjanesinu hefur ferðaþjónustan t.d. boðið upp á nokkuð sem kallast „storm adventures“ þar sem ferðamenn upplifa særokið á Reykjanesi á eigin skinni. Hefur þetta gefið góða raun og þótt hin mesta skemmtun fyrir erlenda ferðamenn.

 

Reiknað er með að hátt í tvö hundruð fyrirtæki taki þátt og um fimm hundruð gestir heimsæki Mannamót. Meðal gesta að þessu sinni eru fulltrúar nokkurra erlendra ferðaþjónustufyrirtækja. „Það sem gerir Mannamót öðruvísi en aðrar ferðasýningar sem við tökum þátt í, eins og Mid-Atlantic og Vestnorden, er hversu mörg ný og oft á tíðum lítil fyrirtæki taka þátt,“ segir Arnheiður, en dæmi eru um fyrirtæki á Mannamótum sem starfað hafa í fáeina mánuði og því ekki enn búin að slíta barnsskónum. Þetta þyki mörgum ferðaskrifstofum innlendum sem erlendum spennandi, enda sjaldgæft tækifæri til að kynnast nýja bruminu í íslenskri ferðaþjónustu á einum og sama staðnum.

 

Mannamót verða í flugskýli Flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 12 og 17 fimmtudaginn 19. janúar.

 

Frítt er inn fyrir gesti, en þeir eru beðnir um að staðfesta þátttöku fyrir 17. janúar á www.markadsstofur.is.

 

Nánari upplýsingar veitir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands // gsm 864 6786 // netfang arnheidur@nordurland.is.

 

Sjá nánar á www.markadsstofur.is.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31