Mannlíf og saga: Badda, Erlingur og Hörður
Snilldarskáldið Badda á Hofsstöðum við Þorskafjörð (Bjargey Kristrún Arnórsdóttir), Erlingur Jónsson á Reykhólum og Hörður Grímsson á Tindum í Geiradal eru meðal þeirra fjölmörgu sem koma við sögu í fyrsta hefti nýrrar ritraðar hjá Vestfirska forlaginu undir heitinu Mannlíf og saga fyrir vestan, nýr flokkur. Á löngu árabili komu út hjá forlaginu tuttugu hefti undir samheitinu Mannlíf og saga fyrir vestan en fyrir nokkrum árum var ákveðið að láta staðar numið. Vegna fjölda áskorana frá áskrifendum og almennum lesendum hefur þráðurinn verið tekinn upp á nýjan leik.
Þættirnir um Erling Jónsson frá Skálanesi og Hörð á Tindum eru að mestu samhljóða því sem á sínum tíma birtist á Reykhólavefnum. Við þáttinn um Böddu á Hofsstöðum er hins vegar aukið ýmsum minningabrotum samferðafólks þessa snilldarhagyrðings vestur við Þorskafjörð.
Mörg undanfarin ár hefur Vestfirska forlagið látið Reykhóladeild Lions í té bækur sínar til sölu til ágóða fyrir starfsemi sína að þjóðþrifamálum í heimabyggð og annars staðar. Þess má vænta að svo verði enn um sinn.
Vestfirska forlagið var lengi með heimilisfesti á Hrafnseyri við Arnarfjörð en hefur seinni árin verið til húsa á Brekku í Dýrafirði.