Tenglar

21. febrúar 2011 |

Margar fjáröflunarleiðir vegna Danmerkurferðar

Frá Dyrehavsbakken.
Frá Dyrehavsbakken.
Unglingarnir í Reykhólaskóla eru að vonum fullir tilhlökkunar vegna Danmerkurferðar í vor. Stöðugt er unnið að fjáröflun vegna ferðarinnar og hefur gengið ágætlega, að sögn Rebekku Eiríksdóttur á Stað. Ferðin mun standa í viku eða 7.-13. apríl og með krökkunum fara Áslaug Guttormsdóttir, Dísa Sverrisdóttir og Rebekka. Ætlunin er að heimsækja skóla þar sem Hjálmar Karl er meðal nemenda, sonur Ragnars og Elfu sem áttu heima á Reykhólum. Kaupmannahöfn verður skoðuð rækilega, hinn gamli höfuðstaður Íslendinga, og skroppið verður í „Bakken“ - Dyrehavsbakken, skemmtigarð sem sagður er hinn elsti í heimi sem enn starfar, stofnaður 1583, þó að margt hafi að sjálfsögðu þróast og breyst þar í aldanna rás.

 

Ýmsu sinna unglingarnir í Reykhólaskóla í fjáröflunarskyni. Skemmst er að minnast pítsudagsins í síðustu viku þar sem 87 pítsur seldust. „Frábært á þremur klukkustundum“, segir Rebekka Eiríksdóttir. Allir nemendurnir hjálpuðust að ásamt nokkrum duglegum foreldrum og pítsumeistaranum Ástu Sjöfn Kristjánsdóttur kennara á Litlu-Grund, sem er alltaf meira en viljug að hjálpa til með þetta skemmtilega framtak.

 

Þriggja kvölda keppni í félagsvist byrjaði fyrr í þessum mánuði (nánar hér). Miðkvöldið í spilamennskunni verður annað kvöld, þriðjudag, og auðvitað er vonast eftir góðri þátttöku. Þriðja og síðasta spilakvöldið verður 8. mars og þá verða afhent vegleg verðlaun fyrir öll kvöldin samanlagt, en auk þess eru verðlaun fyrir hvert kvöld.

 

Enn er að nefna, að krakkarnir hafa verið að selja hreinlætisvörur í fjáröflunarskyni. Á döfinni er að fara söluferð um sveitina dagana 24.-28. febrúar og selja klósettpappír, eldhúsrúllur, ruslapoka, heimilispakkningu, Latabæjarsápu og lakkrís. Jafnframt verður dósum safnað.

 

Í næsta mánuði er fyrirhugað að efna til áheita. Enn er þó ekki búið að fastsetja hvað gert verður.

 

Nemendur í 8 .-10. bekk Reykhólaskóla þakka kærlega þann stuðning sem íbúar Reykhólahrepps hafa sýnt þeim og þakka kærlega fyrir sig!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30