María Játvarðardóttir ráðin félagsmálastjóri
María Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólasveit hefur verið ráðin félagsmálastjóri Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps. Hún er með meistaragráðu í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands og próf í félagsráðgjöf frá Nordland-háskólanum í Bodø í Noregi. Auk þess hefur hún lokið 15 eininga námi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
„Ég hlakka til að koma og þjóna þessum héruðum,“ segir María í samtali við vef Reykhólahrepps.
Hildur Jakobína Gísladóttir, sem gegnt hefur starfi félagsmálastjóra Stranda og Reykhólahrepps frá upphafi, lætur af starfi um mánaðamótin ágúst-september en verður félagsþjónustunni innan handar þar til María hefur störf.
María hefur starfað sem félagsráðgjafi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá árinu 1994 og hefur sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands á sínu fagsviði. Hún var félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg á árunum 1986-1993 en var áður m.a. félagsráðgjafi á Örva, starfsþjálfunarstað fyrir fatlað fólk í Kópavogi.
Sveitarfélögin sem að félagsþjónustunni standa fagna komu Maríu í þetta mikilvæga starf. Jafnframt er Hildi Jakobínu þakkað fyrir vel unnið uppbyggingar- og mótunarstarf á upphafsárum Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps.