Tenglar

8. apríl 2008 |

Matur og menning á suðursvæði Vestfjarða

Frá Hlunnindasýningunni á Reykhólum.
Frá Hlunnindasýningunni á Reykhólum.

Undirbúningur að málþingi undir heitinu Matur og menning á suðursvæði Vestfjarða er kominn vel á veg. Þingið verður haldið á Patreksfirði laugardaginn 24. maí og stendur frá morgni og fram á kvöld og verður öllum opið. Flutt verða 18 stutt erindi en að hverju þeirra loknu verða fyrirspurnir og umræður. Meðal viðfangsefna má nefna hefðbundna verkun og meðferð matvæla sem landið og sjórinn á gefa (egg, fugl, fiskur, selur, hvalur, jarðargróði o.s.frv.), hlunnindi við Breiðafjörð, mataræði sjósóknara á fyrri tíð, sjóræningja á Vestfjörðum, breiðfirsku bátana, náttúru og sögu suðursvæðis Vestfjarða, sérstöðu fuglalífs á svæðinu, merka sögustaði, skrímsli í Arnarfirði og listamenn á suðursvæði Vestfjarða fyrr og síðar.

 

Þinginu lýkur með matarveislu þar sem gjafir náttúrunnar á svæðinu verða matreiddar með fjölbreyttum hætti og verður þar ekki síst litið til fyrri tíðar. Undir borðum mun listafólk af svæðinu koma fram.

 

Svæði það sem málþingið tekur til eru Barðastrandarsýslur, þ.e. svæðið sunnan Arnarfjarðar og Reykhólahreppur ásamt Breiðafjarðareyjum. Erindin sem flutt verða á málþinginu verða gefin út saman í bókarkveri hjá Vestfirska forlaginu.

 

Veisla þar sem sömu réttir verða í boði og matreiddir af sama matreiðslufólki verður síðan öðru hverju í sumar til skiptis á Patreksfirði og í Bjarkalundi í Reykhólasveit. Þar verður einkum horft til ferðafólks sem á leið um þessi héruð.

 

Í hópi fyrirlesara verða Aðalsteinn Valdimarsson bátasmiður á Reykhólum, Böðvar Þórisson líffræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, Jón Kr. Ólafsson söngvari á Bíldudal, María Óskarsdóttir á Patreksfirði, Ragnar Guðmundsson á Brjánslæk og Úlfar Thoroddsen á Patreksfirði, auk fjölda annarra. Hugmyndina og frumkvæðið að málþinginu á Magnús Ólafs Hansson á Patreksfirði.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31