Matur og menning á suðursvæði Vestfjarða
Erla Hafliðadóttir frá Hvallátrum, gistihúsrekandi á Patreksfirði:
- Svartfugl og svartfuglsegg
Anna Jensdóttir, þjónustustjóri á Patreksfirði:
- Hveitikökur - ómissandi með kjötinu
Skjöldur Pálmason, framleiðslustjóri Odda hf. á Patreksfirði:
- Steinbítur - feitur og fallegur
María Óskarsdóttir, fræðimaður á Patreksfirði:
- Mataræði og aðbúnaður sjómanna fyrr á tímum
Alda Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Sjóræningjahússins á Patreksfirði:
- Sjóræningjar á Vestfjörðum
Úlfar B. Thoroddsen, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar:
- Náttúra og saga á sunnanverðum Vestfjörðum - hefðbundin sýn
Hlynur Þór Magnússon, sagnfræðingur á Reykhólum:
- Hlunnindi Breiðafjarðar og nýting þeirra
Soffía M. Gústafsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi:
- Hvalkjöt - steik sem bragð er að!
Hafsteinn Guðmundsson, bóndi í Flatey á Breiðafirði:
- Selur - hollt og gott bjargráð
Ragnar Guðmundsson, bóndi og hafnarvörður á Brjánslæk á Barðaströnd:
- Sögustaðir og sérstakir viðburðir í Vestur-Barðastrandarsýslu
Hlynur Þór Magnússon, sagnfræðingur á Reykhólum:
- Séra Björn í Sauðlauksdal og kartöflurnar
Guðbjartur Á. Ólafsson, fyrrv. skólastjóri á Patreksfirði:
- Iðnskólahald á Patreksfirði í 40 ár
Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður og fræðimaður í Reykjavík:
- Skrímsli í sjó og vötnum
Jón Kr. Ólafsson, söngvari og safnstjóri á Bíldudal:
- Tónlistin eflir sálina
Böðvar Þórisson, líffræðingur á Náttúrustofu Vestfjarða, Bolungarvík:
- Einstakt fuglalíf - fuglar í Barðastrandarsýslum
Hjörleifur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Vestfjarða á Patreksfirði:
- Sjómannadagurinn á Patreksfirði
Ragnar Guðmundsson, bóndi og hafnarvörður á Brjánslæk á Barðaströnd:
- Sagan endalausa
__________________________________________
Hér fer á eftir einn af fyrirlestrunum í bókinni:
Séra Björn í Sauðlauksdal og kartöflurnar
Líklega þætti ýmsum okkar matarborðið snautt ef þar væru aldrei kartöflur. Flest erum við trúlega vön því allt frá bernsku að kartöflur séu sjálfsagðar með bæði fiskinum og kjötinu. Samt er ekki svo langt síðan fyrstu ræktunartilraunir með þennan jarðargróða byrjuðu hérlendis. Aðeins tvær og hálf öld - minna en fjórði hlutinn af þjóðarævi okkar Íslendinga. Auk þess höfðu margir nokkuð lengi hálfgerða skömm á þessu ómeti, að þeim fannst, upp úr moldinni. Um það ber heimildum þó ekki saman. Hinn mikli landsuppfræðingarmaður Magnús Stephensen dómstjóri segir í Eftirmælum 18. aldar, að örðugt hafi verið að fá alþýðufólk til að eta kál og kartöflur, jafnvel þótt hungur væri fyrir dyrum. Náttúrufræðingurinn og skáldið Eggert Ólafsson skrifaði hins vegar rétt áður en hann féll frá laust fyrir 1770, að jarðarávöxtur þessi hafi náð miklum vinsældum á Íslandi, svo að menn telji mat þann, sem úr jarðeplunum er gerður, ekki einungis jafngildi kornmatar, heldur stundum enn betri. Svo virðist, að í öndverðu hafi heldra fólk haft meiri mætur á jarðeplunum en fátæklingarnir. Og kannski hefur Eggert líka viljað auglýsa svolítið kartöflurnar. Það er nú mín tilgáta, en Friðrik mikli Prússakonungur gerði það einnig á sinn hátt. Hann lét vopnaða menn standa vörð um kartöflugarða. Þannig kom hann því inn hjá þegnum sínum að jarðávöxtur þessi væri sérlega eftirsóknarverður.
Vorið 1758, eða fyrir réttum 250 árum, setti Friedrich Wilhelm Hastfer barón á Bessastöðum á Álftanesi niður kartöflur, vafalítið eða vafalaust fyrstur manna hérlendis, og fékk góða uppskeru um haustið. Hastfer barón var sænskur maður. Af honum er nokkur saga hérlendis og ekki öll skemmtileg þótt hann muni hafa verið ágætismaður og áhugasamur um framfarir í búskap og atvinnuháttum. Hann kom hingað til lands tveimur árum áður á vegum stjórnvalda til að koma upp fjárræktarbúi á konungsjörðinni Elliðavatni. Því miður er Hastfer líklega enn kunnari fyrir fjárkláðann sem barst hingað til lands með enskættuðum kynbótahrútum hans en fyrir kartöflurnar. Þess vegna var hann kallaður Hastfer hrútabarón.
Svo hittist á, að núna á 250 ára afmæli kartöflunnar á Íslandi er ár kartöflunnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem tileinka hvert ár einhverju málefni sem varðar heill og framtíð mannkynsins. Ástæðan fyrir valinu á kartöflunni er sú, að hún er talin geta átt góðan þátt í að ná einu af svokölluðum þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna - að fækka um helming fyrir árið 2015 þeim heimsbyggðarbúum sem líða skort og hungur vegna fátæktar. Samt er nú hætt við að því markmiði verði ekki náð, og verður samt varla við kartöfluna að sakast.
Áður en lengra er haldið skulum við hverfa nokkur andartök enn lengra aftur í tímann en áðan og finna þó rótarhnýðisins margumrædda getið hérlendis, ekki aðeins 250 ár aftur í tímann heldur nærri öld betur. Gísli sýslumaður Magnússon, jafnan kenndur við Hlíðarenda í Fljótshlíð og jafnan kallaður Vísi-Gísli, er sagður hafa byrjað garðyrkjutilraunir norður í Eyjafirði bráðungur maður um miðja 17. öld. Hitt er fullvíst að árið 1670 að skrifaði hann Birni syni sínum til Kaupmannahafnar og bað hann senda sér kartöflur og fræ þeirra. Engar vísbendingar eru þó til um að Gísli hafi nokkru sinni fengið kartöflur eða kartöflufræ í hendur. Til Danmerkur bárust kartöflur ekki fyrr en nálega hálfri öld síðar og urðu ekki almennar þar fyrr en alllöngu eftir það.
Sama ár og Hastfer setti niður, og tók upp, kartöflurnar á Bessastöðum, 1758 eða fyrir réttum 250 árum, pantaði séra Björn í Sauðlauksdal kartöflur frá Kaupmannahöfn en fékk þær ekki fyrr en í ágúst árið eftir. Skipið hafði haft langa útivist og kartöflurnar voru orðnar mjög spíraðar og komnar í einn þófa. Björn setti þófa þennan í kerald og huldi moldu og fékk nokkur ný hnýði eða ber þá um haustið. Þau setti hann niður vorið eftir, vorið 1760, ásamt nýju útsæði sem hann fékk að utan nógu snemma til að fá góða uppskeru um haustið. Kartöflurnar sem Björn í Sauðlauksdal fékk sendar voru rauðar og hnöttóttar og hafa því hugsanlega verið afbrigðið sem núna kallast rauðar íslenskar. Samkvæmt genarannsóknum eru rauðar íslenskar á okkar dögum ógreinanlegar frá gammel röd svensk og teljast því sama afbrigðið.
Hvað sem líður kartöflurækt Hastfers baróns mun óhætt að fullyrða, að séra Björn í Sauðlauksdal hafi lagt stund á kartöflurækt fyrstur Íslendinga. Á allra næstu árum fylgja fleiri á eftir, þar á meðal Guðlaugur Þorgeirsson prófastur í Görðum á Álftanesi, nábúi Hastfers, og Davíð Scheving, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, sem búsettur var ekki allfjarri séra Birni. Ekki virðist ósennilegt að í báðum tilvikum séu tengsl þar á milli.
Kartaflan mun upprunnin í vesturhlíðum Andesfjalla í Suður-Ameríku og barst til Evrópu eftir landafundina miklu kringum 1500. Kartöflujurtin er af náttskuggaætt, sem kölluð er, líkt og tóbaksjurtin. Af þessari ætt eru ýmsar baneitraðar jurtir, miklu bráðeitraðri en tóbakið, og meðal þeirra belladonna eða fagra frú, á íslensku sjáaldursjurt. Nafnið belladonna er þannig til komið, að úr jurtinni er unnið atrópín sem konur notuðu til að stækka sjáöldur sín og gera sig þannig enn fegurri. Önnur eiturjurt af ætt kartöflunnar er nornajurt eða hundabani, sem ítalski kardínálinn og eiturbyrlarinn Cesare Borgia og Lucrezia systir hans, og sú familía meira og minna, notuðu í eiturblöndur sínar kringum 1500. Svona getur innrætið verið misjafnt hjá skyldum - plöntum.
Séra Björn Halldórsson, kunnastur sem séra Björn í Sauðlauksdal, var prestssonur frá Vogsósum í Selvogi, fæddur árið 1724. Hann lauk stúdentsprófi frá Skálholtsskóla liðlega tvítugur. Meðal skólabræðra hans þar var Eggert Ólafsson, náttúrufræðingurinn og skáldið sem í bráðan Breiðafjörð í brúðarörmum sökk, eins og séra Matthías segir frá í kvæði sínu. Þeir Eggert og séra Björn voru ekki aðeins vinir og sálufélagar í því sem horfa mátti til framfara hérlendis heldur urðu þeir einnig mágar. Rannveig systir Eggerts var eiginkona Björns.
Að stúdentsprófi loknu var Björn um skeið ritari sýslumannsins í Haga á Barðaströnd. Árið 1749 gerðist hann aðstoðarprestur í Sauðlauksdal handan heiðar og fékk brauðið að sóknarprestinum látnum árið 1752. Í þann tíð dugði stúdentsprófið til prestsskapar. Í Sauðlauksdal þjónaði séra Björn síðan í nærfellt þrjá áratugi en fluttist þá að Setbergi við Grundarfjörð. Þar varð hann fljótlega að hætta prestsþjónustu vegna sjóndepru. Hann sagði brauðinu lausu árið 1786, blindur orðinn, en dvaldist áfram á Setbergi og andaðist þar á sjötugasta aldursári árið 1794.
Þekktastur er séra Björn í Sauðlauksdal af tvennu, garðyrkjustörfum sínum og ritstörfum um landbúnað. Þegar Björn tók við Sauðlauksdal var þar flest í niðurníðslu en um hans daga varð þar eitt hið glæsilegasta setur að húsum og mannvirkjum, prýðilegri umgengni og myndarskap í öllum framkvæmdum - girðingum, framræslu og vatnsveitingum og garðyrkju. Af einstökum framkvæmdum í Sauðlauksdal fyrir utan kartöfluræktina er séra Björn væntanlega kunnastur af grjótgarði þeim sem nefndur var Ranglátur, en það er önnur saga.
Ritstörf séra Björns í Sauðlauksdal á sviði búnaðarfræða halda nafni hans á lofti og munu hafa haft allmikil áhrif. Haustið 1761 ritaði hann skýrslu um ræktunartilraunir sínar síðustu fimm ár. Skýrslan var prentuð á dönsku árið 1765 og þá aukin um fjögur ár í viðbót. Fyrir rit þetta fékk séra Björn heiðursmedalíu frá konungi. Matjurtabók Eggerts Ólafssonar mun að talsverðu leyti vera verk séra Björns. Handritið hvarf í Breiðafjörð með höfundinum en séra Björn setti ritið saman að nýju og bjó til prentunar eftir útdráttum sem Eggert lét eftir sig. Kunnast ritverka séra Björns er ritið með langa nafnið - Atli, eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helzt um jarðar- og kvikfjárrækt, aðferð og ágóða, frumbýlinga, einkanlega þá, sem reisa bú á eyðijörðum. Síðan má nefna ritið Grasnytjar, eða gagn það, sem hver búandi maður getur haft af þeim ósánum villijurtum, sem vaxa í landareign hans. Síðast, og er þó ekki allt talið af hagnýtum fræðsluskrifum Björns, skal hér nefna Arnbjörgu, sem var fræðslurit hliðstætt Atla en ætlað húsmæðrum.
Séra Birni í Sauðlauksdal er þannig lýst í Íslenskum æviskrám: Hann var gáfumaður mikill, hagsýnn og stöðuglyndur, kennimaður góður þótt hann væri lágróma, hraðmæltur og lítill raddmaður, siðavandur mjög og reglubundinn, gestrisinn og hjálpsamur. Hann var skáldmæltur, vel að sér í flestum greinum, guðfræði, lögvísi, forntungum, búfræði og grasafræði, sagnfræði, einkum sögu Íslands, enda hefur hann samið annála og safnað kvæðum. Hann var og með ritfærustu mönnum.
Ef til vill verða rauðar íslenskar eða gammelrauðar sænskar á borðum hér í kvöld. Ekki veit ég það, en hvað sem því líður, þá ættum við að hugsa hlýtt til séra Björns í Sauðlauksdal með kartöflunum.