Tenglar

24. febrúar 2017 | Umsjón

Matvælin ekki hættulaus

Mynd: Morgunblaðið/Þorkell.
Mynd: Morgunblaðið/Þorkell.

„Landfræðileg einangrun Íslands er höfuðástæða þess að húsdýr hérlendis eru að mestu laus við mörg þeirra smitefna sem landlæg eru í dýrum utan Íslands. Smitsjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna er því um margt óvenjuleg þegar hún er borin saman við það sem þekkist erlendis. Einkum á þetta við um hross, nautgripi, sauðfé og geitur. Þessi sérstaða Íslands veldur því að mikill fjöldi þekktra og óþekktra smitefna getur valdið faröldrum í búfé hérlendis.“

 

Þetta segir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, í samtali við Guðmund Magnússon blm. í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni hér fyrir ofan. Þar segir einnig meðal annars:

 

Vilhjálmur segir að mikil verðmæti séu fólgin í núverandi smitsjúkdómastöðu Íslands bæði með tilliti til affalla og afurðatjóns auk dýraverndar og verndar íslensku landnámskynjanna. Þó að skæðir dýrasjúkdómar séu fátíðir hérlendis sé sagan rík af dæmum um sjúkdómsfaraldra sem hér hafa valdið ómældu tjóni. Flesta faraldra hérlendis í búfé sé hægt að rekja til innflutnings á dýrum, en einnig séu dæmi um að dýrasjúkdómar hafi borist með vörum og jafnvel fólki. Í góðri smitsjúkdómastöðu íslensku búfjárstofnanna séu og mikil verðmæti fólgin fyrir lýðheilsu. Þannig séu mörg þeirra smitefna fátíð eða óþekkt í búfé hérlendis sem valdi algengustu og alvarlegustu matarsýkingum í mönnum.

 

„Milliríkjasamningar um aukið frelsi í viðskiptum hafa aukið mjög viðskipti með matvæli og fóður milli landa og heimsálfa, samhliða hefur hættan á smitdreifingu orðið meiri,“ segir Vilhjálmur. „Matvæli eru stór hluti þeirra vara sem eru á alþjóðamarkaði og geta hæglega borið með sér óæskilega sjúkdómsvalda til staða í órafjarlægð frá framleiðslustað,“ segir hann.

 

Smitleiðir eru nú greiðari

 

Vilhjálmur minnir á að Ísland sé eyja og af þeim sökum ætti að vera auðvelt að verjast nýjum smitefnum. Nútímalifnaðarhættir hafi veikt mikið þær varnir sem felist í legu landsins og gert það að verkum að smitleiðir til landsins séu nú greiðari og fjölbreyttari en áður. Smitleiðirnar séu margar og gegn sumum sé illmögulegt að hafa uppi varnir. Á aðrar sé hægt að hafa áhrif með fyrirbyggjandi eða áhættuminnkandi aðgerðum. Vegna óvenjulegrar smitsjúkdómastöðu Íslands í dýrum sé ljóst að öllum innflutningi á ferskum dýraafurðum fylgi ákveðin hætta með tilliti til smitefna. Kröfur íslenskra dýraheilbrigðisyfirvalda til innflutnings sem nú séu í gildi séu vegna sérstöðu landsins er varðar dýrasjúkdóma. Reglurnar dragi úr þeirri hættu sem lýð- og dýraheilsu Íslands geti stafað af innflutningi matvæla unnum úr dýraafurðum.

 

Alvarlegar og óafturkræfar

 

„Ef slakað verður á núgildandi heilbrigðiskröfum má ætla að tíðni matarsýkinga í mönnum hérlendis aukist. Jafnframt er líklegt að smitburður í dýr af óæskilegum sjúkdómsvöldum muni eiga sér stað fyrr en síðar, hvort sem það verður með vörunum sjálfum eða með þeim sem neyta þeirra. Afleiðingar þessara sýkinga og kostnaður samfélagsins mun ráðast af smitefnunum sem berast en getur í verstu tilfellum orðið mikill og afleiðingarnar alvarlegar og óafturkræfar,“ segir Vilhjálmur Svansson.

 

Frystingin drepur ekki veirur

 

Óttast samkeppni við ódýrt hormónakjöt

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31