Tenglar

29. ágúst 2009 |

Með 60 kíló af dýrabeinum úr sorphaug í Flatey

Allt sem grafið var upp var sigtað. Mynd: Íslenskar fornleifarannsóknir.
Allt sem grafið var upp var sigtað. Mynd: Íslenskar fornleifarannsóknir.
Þegar fornleifafræðingarnir sem í vikutíma hafa grafið í öskuhaug í Flatey á Breiðafirði koma suður bíður þeirra ærið verkefni við frekari rannsóknir á afrakstri sumarsins. Í farteskinu verða um 60 kíló af beinum af fiskum, fuglum og spendýrum, sem lýsa á sinn hátt lífinu í Flatey fyrr á öldum og efnahag eyjarskeggja. Grafið er í haug við Miðbæ í Flatey, en sagan segir að þar hafi líklega verið landnámsbýli, þó það hafi ekki verið staðfest með fornleifafræðilegum aðferðum, að sögn Albínu Huldu Pálsdóttur fornleifafræðings, sem stjórnar rannsóknum í Flatey.

 

Grafið hefur verið í ruslahaug frá 17. öld og upp eru komin um 60 kíló af dýrabeinum, en einnig fannst þarna netanál úr koparblöndu og innsigli. Beinin virðast flest af lunda, skarfi og mávum, þorski, ýsu og lúðu, og einnig er talsvert af selabeinum, bæði af fullorðnum sel og kópum.

 

„Það sem hefur komið okkur mest á óvart er hversu varðveisla beinanna er ótrúlega góð í haugnum," segir Albína. „Sýrustigið í jarðveginum er 6,5 og því hlutlaust. Við höfum fundið mikið af kvörnum úr eyrum fiska, sem þola illa súran jarðveg eins og yfirleitt er á Íslandi. Í Flatey höfum við hins vegar fundið mikið af heillegum kvörnum, sem segja okkur mikið um aldur fiska, stærð þeirra og mögulega um umhverfisaðstæður," segir Albína.

 

Rannsóknirnar í Flatey hófust í sumar en Albína telur brýnt að haldið verði áfram næsta sumar. Í rannsókn sem gerð var 1989 var samkvæmt kolefnisgreiningu farið niður á 13. öld í haugnum. Ekki var farið alla leið niður á botn og segir Albína að mögulega sé enn eldri haugur neðar.

 

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31