Tenglar

12. september 2011 |

„Með þessu eru menn enn fastir í sömu drullunni“

„Það eru mikil vonbrigði að ekki skuli vera farið í gerð láglendisvegar, eins og við köllum það, sérstaklega með tilliti til þess að þarna fer skólaakstur um á hverjum virkum degi“, segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, um ákvörðun Ögmundar Jónassonar, ráðherra samgöngumála, að velja svokallaða D-leið fyrir framtíðarveg í Gufudalssveit í Reykhólahreppi. Hún segir jafnframt að ákvörðunin hafi komið á óvart.

 

„Það eru líka vonbrigði að ekki skuli verða stytting á leið, en hætt er við að þvera Þorskafjörðinn eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi Reykhólahrepps. Þar er einnig gert ráð fyrir þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar, það er því verið að breyta þessum áætlunum og við þurfum væntanlega að fara í breytingu á aðalskipulagi“, segir Ingibjörg Birna í samtali við fréttavefinn bb.is á Ísafirði.

 

Gústaf Jökull Ólafsson sveitarstjórnarmaður í Reykhólahreppi tekur undir með Ingibjörgu Birnu, að ákvörðunin valdi miklum vonbrigðum. „Ég er þó ekki að segja að menn eigi að hanga eins og hundar á roði á leið B en okkar kröfur hafa alltaf verið að farið verði í gerð láglendisvegar. Það eru nokkrar leiðir sem hægt er að fara á láglendi. Til dæmis er það bæði hægt með leið A og B en einnig með því að fara Þorskafjörð, undir Hjallahálsinn og út fyrir Ódrjúgshálsinn. Samkvæmt útreikningum Vegagerðarinnar kemur það illa út að Hjallahálsinn verði byggður upp og gert ráð fyrir að há slysatíðni verði á þeim vegi.“

 

Gústaf Jökull segir að vegabætur hefðu verið hafnar mun fyrr ef vitað hefði verið að þetta yrði niðurstaðan. „Ef við hefðum viljað fara yfir heiðar og hálsa værum við fyrir löngu búnir að láta laga þessa vegi. Það var alltaf til peningur til að betrumbæta vegina en það var ekki gert því að menn voru stopp vegna þess máls.“

 

„Það er alveg með ólíkindum hvernig náttúruverndarsinnar hafa fengið að halda því fram að við höfum umgengist náttúruna eins og einhverjir umhverfissóðar. Það er algjör fásinna. Það er alveg hægt að leggja fallega vegi í gegnum fallegt land án þess að illa fari, það er gert víða um heim. Það á alveg að geta farið saman, náttúran, vegir og fólk,“ segir Gústaf Jökull, og bætir við: „Heilt yfir finnst mér að náttúruverndarsinnar hafi alltof mikið um hlutina að segja án þess að geta stutt mál sitt með einhverjum haldbærum skýringum. Það er mín skoðun.“

 

Gústaf Jökull var meðal sveitarstjórnarmanna sem sátu fund með Ögmundi á föstudag þar sem greint var frá þessari ákvörðun. „Ég sagði við Ögmund að manni liði eins og hann hefði löðrungað mann þegar hann greindi frá ákvörðuninni. Ég var einn þeirra sem trúðu því að menn ætluðu nú upp úr hjólförunum, en með þessu eru menn enn fastir í sömu drullunni. Ég hélt að útrétt sáttahönd hefði verið að þvera Þorskafjörðinn frá Kinnarstöðum yfir að Þórisstöðum. Það er búið að fara í umhverfismat og allt klappað klárt og því hefði verið hægt að byrja á því strax. Það hefði jafnvel verið hægt að fara í það fyrir mörgum árum.“

 

Sjá einnig:

Úrskurður varðandi vegamálin: Sama leið áfram (mikill fjöldi athugasemda frá lesendum).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31