Tenglar

26. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Meira um Sturluhátíðina í Tjarnarlundi í Saurbæ

Eins og hér hefur verið greint frá verður á morgun, sunnudag, vegleg hátíðardagskrá í Tjarnarlundi í Saurbæ í minningu þess að um þessar mundir eru 800 ár liðin frá fæðingu sagnaritarans mikla Sturlu Þórðarsonar. Tjarnarlundur er í landi Staðarhóls, þar sem Sturla bjó lengi. „Hann gengur náttúrlega tvímælalaust næst Snorra föðurbróður sínum Sturlusyni,“ segir Dalamaðurinn Svavar Gestsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

 

Bræðurnir Þórður faðir Sturlu og Snorri Sturluson voru frá Hvammi í Dölum, synir Sturlu Þórðarsonar eldra, eða Hvamm-Sturlu eins og hann var yfirleitt nefndur. Helstu verkin sem eru eignuð sagnaritaranum Sturlu Þórðarsyni eru sögur Noregskonunganna Hákonar gamla og Magnúsar lagabætis sonar hans. „Svo eru einnig Íslendinga saga, sem er í Sturlungu, og Landnámabók,“ segir Svavar meðal annars, en hann telur bókmenntaverk Sturlu góðan vitnisburð um það sem á gekk í þann tíð.

 

„Sturlunga er ekki bara skýrsla um það sem einhver höfundur fréttir af að hafi gerst tvö hundruð árum áður en það er skrifað, þetta er samtímalýsing. Örlygsstaðabardagi og Flugumýrarbrenna gerðust til að mynda í hans tíð, hann var þar nálægur í báðum tilvikum. Á nútímavísu er hann svolítið eins og ritstjóri dagblaðs. Hann er á vaktinni þegar hlutirnir eiga sér stað. Hann er því risi í íslenskum bókmenntum fyrr og síðar. Svo var hann einnig snjall pólitíkus, honum tókst nú að halda lífi í þessum djöfulgangi sem Sturlungaöldin var og komst þar mjög til mannvirðinga,“ segir Svavar Gestsson í viðtalinu.

 

Dagskráin í Tjarnarlundi byrjar kl. 13.30 og verður Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands heiðursgestur samkomunnar. Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, flytur erindi sem hún kallar Arfleifð Sturlu Þórðarsonar, en Einar Kárason rithöfundur, sem hefur skrifað mikið um Sturlungatímann, verður með sérstakt erindi um Sturlu sem ber heitið Hann vissi ég alvitrastan og hófsamastan. Forseti Alþingis og forseti norska Stórþingsins munu ávarpa samkomuna.

 

„Hugmyndin er sú að þetta verði fyrstu sporin að því að stofna Sturlusetur í Dalasýslu, en sveitarstjórn Dalabyggðar hefur gert samþykkt þess efnis að stefnt verði að stofnun þess seturs. Tilgangurinn með þessari hátíð er að reyna að skapa hreyfingu sem verður til þess að það verði stofnað,“ segir Svavar.

 

„Satt að segja hefur áhuginn á þessu Sturluframtaki verið mjög mikill og hann kemur fram víða,“ segir Svavar ennfremur, og nefnir útgáfu frímerkis núna í haust í minningu Sturlu Þórðarsonar. „Sturla er náttúrlega ekki bara eign okkar Dalamanna heldur er hann þjóðareign. Hugmyndin er því sú að reyna að vekja athygli á honum og fá sem flesta til að taka eftir því sem hann lét eftir sig.“

 

Sitthvað fleira er á dagskrá hátíðarinnar en hér hefur verið nefnt. Sjá nánar:

 

Sturluhátíð í Tjarnarlundi

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31