Tenglar

27. febrúar 2012 |

Meistari Siggi Hall rómar gæði íslensks hráefnis

Siggi Hall.
Siggi Hall.

„Íslensk veitingahús eru flestöll í háum gæðaflokki. Það er vegna þess að þegar gæði eru annars vegar stöndum við vel hvað varðar mat og matreiðslu. Við eigum frábært hráefni vegna þess að það er svo mikill ferskleiki í kringum okkur. Ég held að hvergi í heiminum sé borinn á borð á heimilum jafnferskur fiskur og hér á Íslandi, nokkurn veginn beint úr bátnum. Við eigum íslenska lambakjötið sem ég er sannfærður um að er eitthvert besta kjöt í heimi. Íslenska lambakjötið og íslenskar landbúnaðarvörur eru ræktaðar og unnar í hreinu umhverfi, landi þar sem er nóg pláss.“

 

Þetta segir matreiðslumeistarinn Siggi Hall í viðtali í Morgunblaðinu í dag, í tilefni af matarhátíðinni árlegu Food & Fun sem hefst á miðvikudaginn. Ennfremur segir hann:

 

„Við erum í dálítið rómantískum gamaldags búskap. Þar er fjölskyldan, afi og amma, kýr og kindur, hestar og landnámshænur, traktor og sláttuvél og hundur og bóndabær undir fjöllunum. Þetta er mjög sérstakt umhverfi sem er ekki alls staðar. Við erum með heiðar þar sem lömbin vafra um frjáls og nærast á grasi, jurtum og lyngi, drekka tært vatn og hafa 24 tíma dagsljós. Aðrir geta ekki boðið upp á þessi landgæði.

 

Svo er íslenska mjólkin. Ef það er búið til skyr úr annarri mjólk en þeirri íslensku verður það ekki eins. Íslenska smjörið er engu smjöri líkt. Allt þetta hef ég verið að bera á borð fyrir útlenda matreiðslumeistara um allan heim. Það færist undrunar- og aðdáunarsvipur yfir þá alla vegna þess að við búum til svo góðar vörur.

 

Við Íslendingar höfum alltaf verið með svolítinn heimóttarskap og ekki verið alveg vissir um hvort það sé rétt sem við erum alltaf að segja um gæði lambakjötsins og íslenska smjörsins. Ég hef fengið staðfest að þetta er rétt.“

 

Food & Fun

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30