Mengunarmælir kominn í gagnið á Reykhólum
Skrifstofa Reykhólahrepps hefur keypt mengunarmæli til að fylgjast með brennisteinsdíoxíði í andrúmslofti. Brennisteinsdíoxíð er efnið skaðvæna sem kemur frá eldgosinu í Holuhrauni og berst um land allt eftir vindátt hverju sinni. Mælirinn er hafður fyrir utan skrifstofuna við Maríutröð á Reykhólum. Lesið er af honum einu sinni til þrisvar á dag og birtast niðurstöðurnar á þessari síðu á vef Umhverfisstofnunar.
Smella þarf á flipann sem á stendur Handmælar (sjá myndina, smellið á hana til að stækka). Þá koma upp þeir staðir þar sem slíkir mælar eru í notkun. Eingöngu eru sýndar skráningar á síðustu fjórum klukkustundum. Búast má við því að sjaldnar en ella sé lesið af mælum þegar vindáttir valda því að litlar eða engar líkur eru á mengun á viðkomandi stað.
Á tilgreindri síðu á vef Umhverfisstofnunar má finna upplýsingar af öllu tagi um loftmengun.