Tenglar

26. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Menningarfélag Flateyjar - félag sem vantar

Vörubifreið Flateyinga við Kaupfélagshúsið. Ein ótal mynda á vef Framfarafélags Flateyjar.
Vörubifreið Flateyinga við Kaupfélagshúsið. Ein ótal mynda á vef Framfarafélags Flateyjar.

Gunnar Sveinsson í Eyjólfshúsi í Flatey fjallar um skáldsysturnar breiðfirsku, Ólínu og Herdísi Andrésdætur, á vef Framfarafélags Flateyjar. Hann getur þar einnig um náinn skyldleika þeirra við skáldkonuna Theodóru Thoroddsen, listamanninn fjölhæfa Mugg (Guðmund Thorsteinsson) og þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði, og segir svo: Það má því sannarlega segja að þær eru vel ætttengdar við mörg góð skáld og listamenn sem í Flatey hafa dvalið. Síðan varpar Gunnar fram hugmyndum um nokkuð sem honum finnst sárlega vanta: Menningarfélag Flateyjar.

 

Markmið með þessu félagi væri að hlúa að menningarlífi í Flatey í sinni víðustu mynd í nútíð, fortíð og framtíð. Tekið yrði fyrir og hlúð að sögu skálda og kveðskap í eyjunum, stuðla að og standa fyrir tónleikahaldi, myndlistasýningum og menningarlegum viðburðum í Flatey, keppnis- og íþróttaatburðum, svo sem skákmótum, endurreisa og endurheimta bókasafn Flateyjar og búa því fallegan stað sem síðar gæti orðið menningarsetur Flateyjar, koma á fót byggða- og minjasafni í Flatey en vitað er af miklum fjölda athyglisverðra, gamalla muna og gripa í Flatey og Inneyjum sem sárlega þarfnast umhirðu og samastaðar, safna saman kvæðum og sönglögum og gefa út söngbók Flateyinga, huga að og safna saman upplýsingum og fróðleik um mat, matargerð og matarhefðir úr þessari „matarkistu Breiðafjarðar“ og hefja til virðingar á nýjan leik þessa sérstæðu matarmenningu, endurreisa Flateyjardaga og koma á Degi Flateyjarkirkju.

 

Sitthvað fleira leggur Gunnar Sveinsson til í þessum efnum og segir loks:

 

Af nógu er að taka og verkefnin ærin þannig að ég óttast ekki að þetta tilvonandi Menningarfélag Flateyjar verði verkefnalaust í náinni framtíð. Ég þykist vita að glatt verður á hjalla í þessum góða menningarlega hópi Flateyinga og Inneyinga sem og velunnara Flateyjar þar sem menningin ræður ríkum og gleður andann.

 

Grein Gunnars Sveinssonar í heild á vef Framfarafélags Flateyjar

 

Tengil á vef félagsins er að finna hér hægra megin á vef Reykhólahrepps, grænan borða merktan Flatey. Á vefnum er að finna hundruð ljósmynda frá lífi og starfi í Breiðafjarðareyjum fyrr og síðar.

 

Framfarafélag Flateyjar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30