Tenglar

10. júní 2012 |

Menningarstyrkir veittir undir nýjum formerkjum

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum fékk annan af tveimur hæstu stofn- og rekstrarstyrkjum sem Menningarráð Vestfjarða veitir til menningarstofnana á Vestfjörðum fyrir þetta ár eða kr. 1.400 þúsund. Össusetur Íslands í Reykhólahreppi fékk eina milljón. Styrkjum undir þessum formerkjum var úthlutað í fyrsta sinn fyrir skömmu. Ellefu menningarstofnanir fengu styrki, samtals kr. 11,4 milljónir. Styrkirnir féllu sem hér segir:

 

Kr. 1.400.000

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum

Melrakkasetur Íslands

 

Kr. 1.000.000

Menningarmiðstöðin Edinborg

Strandagaldur ses

Félag um endurreisn listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal

Félag áhugamanna um víkingaverkefni á slóðum Gísla Súrssonar

Félag áhugamanna um stofnun Skrímslaseturs

Ósvör - sjóminjasafn

Sauðfjársetur á Ströndum ses

Össusetur Íslands

 

Kr. 600.000

Listakaupstaður

 

Styrkir þessir eru veittir á grundvelli viðauka við menningarsamning milli ríkisins og Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem undirritaður var fyrr á þessu ári. Áður var úthlutun þessara stofn- og rekstrarstyrkja frá ríkisvaldinu í höndum fjárlaganefndar Alþingis, en hún hefur nú hætt úthlutun á styrkjum til ýmissa stofnana og verkefna á grundvelli umsókna til nefndarinnar.

 

Samkvæmt samningnum fær Menningarráð Vestfjarða 11,4 milljónir til ráðstöfunar árin 2012 og 2013, sem heimilt er að veita til stofn- og rekstrarstyrkja. Þetta er aðeins lítill hluti af þeirri upphæð sem ráðstafað hefur verið árlega til menningarstarfsemi og uppbyggingar á Vestfjörðum síðustu árin á fjárlögum, segir í tilkynningu frá Menningarráði.

 

Hluti af því fjármagni sem fjárlaganefnd Alþingis ráðstafaði áður til menningarverkefna var nýttur í að styrkja aðra opinbera menningarsjóði eins og t.d. Safnasjóð og Húsafriðunarsjóð. Þá fékk mennta- og menningarmálaráðuneytið fjármagn til að ráðstafa til menningarstarfsemi á grundvelli umsókna sem bárust ráðuneytinu. Við þá úthlutun var einkum horft til þeirra aðila og verkefna sem vegna eðlis starfseminnar áttu ekki möguleika á styrk frá menningarráðum landshlutanna eða úr öðrum opinberum sjóðum.

 

Alls bárust 40 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki til Menningarráðs Vestfjarða þegar eftir þeim var auglýst og var sótt um framlög að upphæð rúmlega 81 milljón. Að þessu sinni fengu 11 aðilar stuðning, samtals að upphæð 11,4 milljónir, þannig að allri upphæðinni sem var til ráðstöfunar var úthlutað.

 

Menningarráðið hefði gjarnan viljað hafa meira fjármagn til ráðstöfunar í þessa styrki og hefði gjarnan viljað veita bæði hærri styrki og fleiri. Það var erfitt verkefni að velja milli margra góðra umsókna, enda má ljóst vera að framlög frá fjárlaganefnd hafa í mörgum tilvikum ráðið úrslitum um rekstrarhæfni og uppbyggingu hjá menningarstofnunum á landsbyggðinni síðustu árin, segir í tilkynningunni.

 

Ekki verður lagt í kostnað vegna sérstakrar úthlutunarathafnar að þessu sinni. Þeim sem hlutu styrki er óskað til hamingju og allir umsækjendur fá bestu þakkir fyrir umsóknirnar og góðar óskir um gott gengi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31