Tenglar

9. október 2009 |

Menningartengd námskeið á Hólmavík og Reykhólum

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur auglýst þrjú menningartengd námskeið sem kennd verða í gegnum fjarfundabúnað. Námskeiðin bjóðast í fjarfundi á Hólmavík og Reykhólum ef næg þátttaka fæst og búnaður er laus til afnota. Á tveimur þeirra fjallar Einar Kárason rithöfundur um Íslendingasögur en hann er kunnur fyrir að segja skemmtilega frá og gefa sögunum aukið og jafnvel nýtt líf. Á hinu þriðja fjallar Jón Björnsson um Jakobsveginn svokallaða.

 

Fyrra Íslendingasögunámskeið Einars Kárasonar kallast Höfundur Njálu en þar verður farið yfir helstu kenningar sem fram hafa komið um uppruna Njálu og umræður sem orðið hafa um hinn óþekkta höfund bókarinnar, frægasta fornrits okkar Íslendinga. Námskeiðið er kennt tvö mánudagskvöld, 12. og 19. október kl. 20.15-22.15 og fer hver að verða síðastur að skrá sig.

 

Seinna námskeiðið með Einari er Leiðarvísir að Sturlungu þar sem hann endursegir með eigin orðum helstu viðburði og leikendur á sviði 13. aldar. Aðaláhersla er lögð á Örlygsstaðabardaga og langan aðdraganda hans, Flóabardaga og að lokum Flugumýrarbrennu, þar sem hann leiðbeinir inn um bakdyr sem opnast að veröld þessarar mögnuðu bókar. Námskeiðið er kennt þrjú miðvikudagskvöld, 11., 18. og 25. nóvember kl. 20.15-22.15.

 

Þriðja menningartengda námskeiðið sem boðið verður í fjarfundi er Pílagrímsleiðin til Santiago de Compostella með Jóni Björnssyni. Þar mun Jón fjalla um Jakobsveginn og söguna sem tengist þessari leið, svo sem dýrlinga og helga dóma, pílagríma og pílagrímsferðir og trú og táknfræði miðaldakirkjunnar. Námskeiðið verður kennt þrjú kvöld, mánudag 26. október, miðvikudag 28. október og mánudag 2. nóvember kl. 20.15-22.15.

 

Nánari upplýsingar og skráning eru hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, annað hvort á vef miðstöðvarinnar eða í síma 456 5025.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31