Tenglar

3. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Mér er það mál persónulega nokkuð skylt ...

Gústaf Jökull flytur ávarp sitt í setustofunni í Barmahlíð.
Gústaf Jökull flytur ávarp sitt í setustofunni í Barmahlíð.

„Síðar vann ég hér við aðhlynningu. Ólafur Vestmann, eiginmaður Maríu Bjarkar Reynisdóttur forstöðukonu, var á næturvöktum fljótlega eftir að heimilið var tekið í notkun. Eftir það var hérna enginn karlmaður í hópi starfsfólks í allmörg ár. Konurnar á Reykhólum sögðu að karlmenn gætu ekki unnið við aðhlynningu aldraðra og skoruðu á mig að koma hér til starfa! Ég tók mér frí á Karlseynni í janúar og febrúar 1994, að mig minnir. Þá var ekkert róið þannig að ég fékk mér bara launalaust frí og vann hér þann tíma.“

 

Ofanritað er kafli úr ávarpi sem Gústaf Jökull Ólafsson, stjórnarformaður Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum, flutti á hátíðarsamkomu á heimilinu á Barmahlíðardaginn - sumardaginn fyrsta. Þar var haldið upp á 25 ára afmæli Barmahlíðar, en miðað er við 11. mars 1988 þegar fyrsta heimilisfólkið fluttist inn. Reykhólavefurinn fór þess á leit við Gústaf Jökul að fá ávarp hans til birtingar og fylgir það hér á eftir.

 

 

Gleðilegt sumar, kæra heimilisfólk í Barmahlíð, ágæta starfsfólk, góðu gestir.

 

Sumardagurinn fyrsti er árviss gleðidagur á Reykhólum og í Reykhólahreppi öllum. Ekki aðeins vegna hinnar formlegu komu sumarsins, sem að þessu sinni gengur í garð með björtu veðri en hvössu, heldur líka vegna þess að Barmahlíðardagurinn er alltaf haldinn á sumardaginn fyrsta. Núna er alveg sérstök ástæða til að fagna Barmahlíðardeginum vegna þess að aldarfjórðungur er liðinn frá því að þetta heimili var tekið í notkun. Mér er það mál persónulega nokkuð skylt, því að fyrsta fólkið sem fluttist hér inn voru Herdís Zakaríasdóttir í Djúpadal og afi minn, Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi.

 

Barmahlíð á líka með öðrum hætti talsverðan hlut í mér, því að þegar ég var í sjötta bekk í grunnskólanum vorum við allir krakkarnir kallaðir hingað til aðstoðar þegar farið var að steypa plötuna. Síðan þegar verið var að byggja fengum við strákarnir hér vinnu við að handlanga í múrarana. Þegar húsið var komið upp fékk maður svo vinnu með Lárusi heitnum Magnússyni við pípulagnir þegar gengið var frá miðstöðvarkerfinu. Eins með Sigurði heitnum Lárussyni rafvirkjameistara frá Tjaldanesi og Friðrik heitnum málara frá Hólmavík. Þannig má segja, að ég hafi á ungum aldri tekið talsverðan þátt í byggingu þessa stóra og reisulega húss og gaman að hafa komið þar við sögu.

 

Síðar vann ég hér við aðhlynningu. Ólafur Vestmann, eiginmaður Maríu Bjarkar Reynisdóttur forstöðukonu, var hér á næturvöktum fljótlega eftir að heimilið var tekið í notkun. Eftir það var hér enginn karlmaður í hópi starfsfólks í allmörg ár. Konurnar hér á Reykhólum sögðu að karlmenn gætu ekki unnið við aðhlynningu aldraðra og skoruðu á mig að koma hér til starfa! Ég tók mér frí á Karlseynni í janúar og febrúar 1994, að mig minnir. Þá var ekkert róið þannig að ég fékk mér bara launalaust frí og vann hér þann tíma.

 

Mér fannst afskaplega skemmtilegt að sitja hér og spjalla við fólkið og lesa fyrir það Breiðfirskar sagnir þegar úti var öskuþreifandi bylur. Já, það var virkilega skemmtilegt og gaman að hafa líka tekið þátt í svona starfi hér á heimilinu. Eftir þetta hafa auðvitað fleiri karlar unnið hér, sem mér finnst hið besta mál. Ég held að það sé gott að hafa bæði kynin í störfum af þessu tagi.

 

Forsaga heimilisins frá fyrstu hugmyndum og fram til þess dags þegar það var tekið í notkun spannaði tæpan áratug. Mörg félög og samtök stóðu að þessu mikla framtaki, en núna er Barmahlíð að fullu í eigu Reykhólahrepps, auk einnar íbúðar sem er í eigu Öryrkjabandalags Íslands.

 

Upphafið má rekja allt til ársins 1979, þegar haldinn var á Reykhólum almennur fundur um málefni aldraðra. Frumkvæði að þessum fundi átti Heilsugæslan í Búðardal en læknar þar voru einnig læknar í Reykhólalæknishéraði. Framsöguerindi fluttu Sigurbjörn Sveinsson læknir, Vilhjálmur Sigurðsson oddviti Reykhólahrepps og Valdimar Hreiðarsson sóknarprestur. Mættir voru 15 manns. Fundur þessi samþykkti að skipa fjögurra manna nefnd til að gera könnun á högum aldraðra í Austur-Barðastrandarsýslu, þörfum þeirra og óskum varðandi vistunarrými. Í nefndina voru skipuð Ingibjörg Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur í Garpsdal, Sveinn Guðmundsson bóndi og kennari á Miðhúsum, Valdimar Hreiðarsson sóknarprestur og Eiríkur Ásmundsson kaupfélagsstjóri. Sendur var spurningalisti til allra hér sem fæddir voru árið 1914 og fyrr. Nefndin taldi að þörf væri á 10 dvalarrýmum og 5-7 rýmum í íbúðum fyrir aldraða og fatlaða.

 

Ýmis ljón urðu þó á veginum. Heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið taldi mjög vafasaman grundvöll fyrir byggingu dvalarheimilis á Reykhólum þótt upplýsingar frá undirbúningsnefnd bentu ótvírætt til þess að full þörf væri á slíku. Heimamenn héldu þó sínu striki og héldu undirbúningi áfram. Þá þegar var til dálítill sjóður, auk stofnfjárloforða frá félagasamtökum og einstaklingum. Sumarið 1982 var búið að semja um kaup á öllu efni í grunn byggingarinnar og gengið frá fjármögnun byrjunarframkvæmda.

 

Sótt var um lán úr Framkvæmdasjóði aldraðra, en þeim sjóði var ætlað að standa straum af helmingi framkvæmda eða þar um bil. Lokið var við grunn hússins árið 1982. Þá voru heimamenn og fleiri búnir að gefa mjög mörg dagsverk, bæði með vinnu og fjárframlögum, þannig að engin skuld var á grunninum þegar hann var tilbúinn. Árið 1983 var húsið reist og tilbúið undir tréverk.

 

Síðan gerðist ekkert fyrr en árið 1986. Þá voru komnar í framkvæmdanefnd Ingibjörg Kristjánsdóttir, Indiana Svala Ólafsdóttir og María Björk Reynisdóttir hjúkrunarfræðingur, sem búsett var á Reykhólum á þessum tíma. Þessar heiðurskonur settu nú allt í gang til að koma byggingunni í notkun. Eitthvert fé hafði safnast á þessum árum framkvæmdaleysis, þó að einnig væru ógreidd lán.

 

Ákveðið var að koma hluta hússins í gagnið og strax hafist handa. Enn komu margir sjálfboðaliðar sem gáfu sína vinnu, ásamt því sem fjárframlög komu frá einstaklingum og félagasamtökum. Þannig tókst að ljúka við hluta hússins, nokkur herbergi, eldhús til bráðabirgða og dagstofu. María Björk sem nú varð fyrsti forstöðumaður Barmahlíðar og jafnframt hjúkrunarfræðingur bjó hér með fjölskyldu sinni í tveimur herbergjum og sá ein um reksturinn fyrstu vikurnar.

 

Þann 11. mars 1988 kom síðan fyrsta heimilisfólkið, þau Herdís í Djúpadal og Játvarður Jökull afi minn eins og áður sagði. Tveimur dögum seinna eða sunnudaginn 13. mars var heimilið vígt með formlegum hætti. Um sumarið fjölgaði svo heimilisfólki, en rými fyrir sex manns voru þá tilbúin. Jafnframt voru líka ráðnir tveir starfsmenn í hlutastörf. Síðan fjölgaði smátt og smátt í Barmahlíð, bæði heimilisfólki og starfsfólki.

 

Fyrsti forstöðumaður Barmahlíðar var eins og áður sagði María Björk Reynisdóttir hjúkrunarfræðingur. Þegar hún fór skömmu síðar í barneignarleyfi leysti Ingibjörg Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur í Garpsdal hana af á meðan og tók síðan við starfinu að fullu fáum árum síðar þegar María Björk fluttist brott.

 

Framan af var jafnan talað um forstöðumann Barmahlíðar en á seinni árum er starfsheitið hjúkrunarforstjóri. Þeirri stöðu gegnir nú Þuríður Stefánsdóttir, sem tók við starfinu í ársbyrjun 2006.

 

Í daglegu tali er heimilið oftast nefnt Dvalarheimilið Barmahlíð eða einfaldlega Barmahlíð. Formlegt heiti þess er hins vegar Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð enda lýsir það best starfinu þar.

 

Hérna á heimilinu eru 13 hjúkrunarrými og 2 dvalarrými. Auk þess er talsvert um tímabundnar hvíldarinnlagnir.

 

Að jafnaði er starfsfólkið í Barmahlíð um 12-15 manns. Þar af eru margir í hlutastarfi, þannig að stöðugildin eru mun færri. Engu að síður er þetta einn af þremur stærstu vinnustöðunum á Reykhólum.

 

Mörg félög og samtök hafa stutt dyggilega við þetta góða heimili í áratuganna rás. Þar má fyrst nefna Vinafélag Barmahlíðar, sem stofnað var fyrir sex árum og hefur látið ótalmargt gott af sér leiða, bæði með gjöfum og ýmsum félagsstörfum. Einnig hefur Lionsklúbburinn verið mjög rausnarlegur gegnum árin. Alltaf er hætt við að einhverjir gleymist þegar byrjað er að telja upp og þess vegna læt ég hér staðar numið í þeim efnum. Þakka einfaldlega öllum þeim fjölmörgu sem stutt hafa við heimilið allan þennan tíma. Samt verður það framlag aldrei fullþakkað.

 

Núna fögnum við 25 ára afmæli Barmahlíðar og óskum þess hjartanlega að starfsemin muni áfram treystast og eflast. Til að svo geti orðið þarf samheldni og samhug okkar íbúanna hér og allra velunnara. En þó ekki síst ráðamanna sem ákvarða framlög til öldrunarmála.

 

Gleðilegt sumar!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29