Tenglar

9. október 2015 |

Merkisbátar komnir til varðveislu á Reykhólum

Bílar, bátar og menn: Gunnbjörn, Torfi Sigurjónsson, Hjalti og Hafliði. Hinar myndirnar ættu að tala sínu máli.
Bílar, bátar og menn: Gunnbjörn, Torfi Sigurjónsson, Hjalti og Hafliði. Hinar myndirnar ættu að tala sínu máli.
1 af 7

Tveir merkisbátar komu fyrir skömmu frá Byggðasafninu í Görðum á Akranesi til varðveislu á Reykhólum, Draupnir BA og Bjarmi SH. Flutninginn annaðist Gunnbjörn Óli Jóhannsson verktaki frá Kinnarstöðum í Reykhólasveit (Kolur ehf.) og ók hann öðrum bílnum, en hinum ók Hafliði Aðalsteinsson, sérfræðingur um breiðfirska súðbyrðinga og einn þeirra sem standa að Bátasafni Breiðafjarðar á Reykhólum. Aðeins eru þrjár vikur síðan Gunnbjörn kom með tvo vagna hlaðna gömlum bátavélum norðan frá Akureyri til varðveislu á Reykhólum (sjá Stórgjöf til Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum).

 

Draupni BA 40 smíðaði bátasmiðurinn frægi Aðalsteinn Aðalsteinsson í Hvallátrum á Breiðafirði á árunum 1959-60. Þetta er liðlega 10 brl. skarsúðaður bátur úr eik og furu. Hann var tekinn af skrá árið 1976 vegna endurbóta en síðan settur aftur á skrá árið 1980. Síðasti eigandi hans var Skúli Aðalsteinsson í Neskaupstað og gaf hann Byggðasafninu í Görðum bátinn til varðveislu árið 1995. Draupnir verður nú í varðveislu Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum, en skilin milli hennar og Bátasafns Breiðafjarðar eru dálítið óglögg.

 

Bjarmi SH 207 er 9 brl. súðbyrtur og hekkbyggður furu- og eikarþilfarsbátur, smíðaður árið 1961 á Bátaverkstæði Gunnlaugs og Trausta sf. á Akureyri. Báturinn hét upphaflega Vinur EA, síðan Bjarmi EA, svo Bjarmi SH, þá Bjarni SH og loks aftur Bjarmi SH. Hann var afskráður og gefinn Byggðasafninu í Görðum árið 1993 þar sem gert var við hann sumarið eftir. Báturinn verður hér eftir í varðveislu Hjalta Hafþórssonar, bátasmiðs og bátafræðings á Reykhólum.

 

Upplýsingarnar um bátana sem hér eru birtar eru aðeins lítið brot af þeim upplýsingum sem um þá er að finna á bátafróðleiks- og bátasmíðavef Hjalta Hafþórssonar. Lesið um þá þar og sjáið margar fleiri myndir af þeim. Fyrir nú utan fróðleik um nánast óteljandi aðra báta og bátasmíði, þar á meðal um tillögubátana sem Hjalti hefur smíðað eftir gömlum heimildum og jafnvel allt frá því í heiðnum sið á Íslandi (Vatnsdalsbáturinn, sjá meðal annars hérna, þar sem ýmsa tengla á fréttir af starfi Hjalta er að finna).

 

Fyrstu fimm myndirnar sem þessari frétt fylgja tók umsjónarmaður þessa vefjar þegar bátarnir komu til Reykhóla. Síðustu tvær myndirnar tók Ása í Hólabúð morguninn eftir þegar Guðlaugur Theódórsson á Reykhólum kom með kranann sinn til að hífa bátana af vögnunum.

 

Athugasemdir

Orn Eliasson, laugardagur 10 oktber kl: 20:54

Yahoo!, Gaman ad sja Draupni aftur. Sem strakur sa eg Draupni i Latrum pegar Adalsteinn var ad smida hann og seinna var eg svo heppinn ad fa far med Adalsteini a Draupni, fullgerdum, ut i Latur. Fannst mer mjog merkilegt ad hann var med þilfarshúsi, en pad var ekki algengt a peim tima. Reykholafolk, sem er hugulsamt um fortidina, a ser bjarta framtid. Bestu kvedjur. Orn.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31