Tenglar

28. desember 2010 |

Mesta slysahættan í kringum áramót

Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri björgunar- og slysavarnasviðs Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir flest flugeldaslys verða þegar leiðbeiningum er ekki fylgt. Hann segir mestu slysahættuna vera dagana í kringum áramótin. Þá slasast helst unglingsdrengir sem eru að fikta með flugelda, taka þá í sundur og gera eigin sprengjur. Slys tengd því fikti hafa mörg hver verið mjög alvarleg og áverkar oft bæði á andliti og höndum. Dæmi eru um ungmenni sem hafa misst hluta af útlim, fengið ævilangt lýti, tapað sjón og jafnvel látið lífið. Mikilvægt er að foreldrar ræði þessi mál við börn sín og fylgist vel með iðju þeirra í kringum áramótin.

 

Hinn hópurinn sem er í hættu eru fullorðnir karlmenn sem helst slasast um áramótin sjálf þegar þeir fara óvarlega með flugeldana. Oft er áfengi í spilunum en óþarfi er að taka það fram að þetta tvennt á aldrei saman. Flestir slasast á höndum en augnslys eru líka algeng þó svo að alvarlegum augnslysum hafi fækkað undanfarin ár, en það má þakka almennri notkun flugeldagleraugna.

 

Gunnar bendir á að flugelda skal alltaf geyma á öruggum stað þar sem börn ná ekki til og fjarri allri eldhættu. Farið skal vel yfir þær leiðbeiningar sem fylgja flugeldunum og ákveðið hvar á að skjóta þeim upp. Þegar skotstaður er valinn er gott að hafa í huga að fjarlægð frá næstu húsum á að vera a.m.k. 20 metrar og undirstöður sléttar og stöðugar. Undirbúið stöðugan skothólk fyrir rakettur og gerið viðunandi ráðstafanir ef dýr eru í nágrenninu. Best er að halda þeim innandyra meðan skotið er.

 

Hafið tilbúna ullar- eða skinnhanska á alla fjölskylduna. Þeir veita vernd gegn bruna á höndum. Einnig ættu öryggisgleraugu að vera til staðar fyrir alla þá sem eru úti að skjóta upp eða fylgjast með ljósadýrðinni. Góð regla er að fara yfir slökkvitæki og annan eldvarnabúnað í íbúðinni eða húsinu (reykskynjara, eldvarnateppi) fyrir jól og áramót.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31