Mesta slysahættan í kringum áramót
Hinn hópurinn sem er í hættu eru fullorðnir karlmenn sem helst slasast um áramótin sjálf þegar þeir fara óvarlega með flugeldana. Oft er áfengi í spilunum en óþarfi er að taka það fram að þetta tvennt á aldrei saman. Flestir slasast á höndum en augnslys eru líka algeng þó svo að alvarlegum augnslysum hafi fækkað undanfarin ár, en það má þakka almennri notkun flugeldagleraugna.
Gunnar bendir á að flugelda skal alltaf geyma á öruggum stað þar sem börn ná ekki til og fjarri allri eldhættu. Farið skal vel yfir þær leiðbeiningar sem fylgja flugeldunum og ákveðið hvar á að skjóta þeim upp. Þegar skotstaður er valinn er gott að hafa í huga að fjarlægð frá næstu húsum á að vera a.m.k. 20 metrar og undirstöður sléttar og stöðugar. Undirbúið stöðugan skothólk fyrir rakettur og gerið viðunandi ráðstafanir ef dýr eru í nágrenninu. Best er að halda þeim innandyra meðan skotið er.
Hafið tilbúna ullar- eða skinnhanska á alla fjölskylduna. Þeir veita vernd gegn bruna á höndum. Einnig ættu öryggisgleraugu að vera til staðar fyrir alla þá sem eru úti að skjóta upp eða fylgjast með ljósadýrðinni. Góð regla er að fara yfir slökkvitæki og annan eldvarnabúnað í íbúðinni eða húsinu (reykskynjara, eldvarnateppi) fyrir jól og áramót.